Donald Trump Bandaríkjaforseti segir fréttir bandarískra miðla, þess efnis að starfsfólk framboðs hans hafi verið í sambandi við rússneska leyniþjónustumenn endurtekið á undanförnu ári, vera samsæriskenningar og blint hatur falskra fjölmiðla.
Tengsl framboðs hans við Rússland sé eingöngu tilraun til þess að hylma yfir þau fjölmörgu mistök sem Hillary Clinton og hennar framboð hafi gert í kosningabaráttunni. Þetta kemur allt fram á Twitter-síðu forsetans. Hann talar þó einnig um að upplýsingarnar, sem koma fram í fréttum New York Times og Washington Post í morgun, séu illa fengnar. Það sé raunverulegi skandallinn í málinu og sé mjög óamerískt.
Rússnesk stjórnvöld hafa einnig sagt fréttir New York Times og Washington Post vera falsfréttir.
Í New York Times í morgun er vitnað til fjögurra núverandi og fyrrverandi embættismanna í Bandaríkjunum vegna samskipta milli fólks sem tengist Trump og rússneskra leyniþjónustumanna, en fyrir liggja gögn um símtölin, tímasetningu þeirra og úr hvaða tækjum var hringt. Ekki liggja hins vegar fyrir upplýsingar um hvert efni símtalanna var og þá hefur Hvíta húsið ekki staðfest fréttirnar, en þeim hefur heldur ekki verið hafnað.
Michael Flynn sagði í gær af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi eftir að hann viðurkenndi að hafa greint varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, ranglega frá efni samtala sem hann átti við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, Sergei Kislyak. Hann ræddi meðal annars við hann viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum, en því hafði hann áður neitað.
Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur Flynn nú til rannsóknar vegna tengsla hans við Rússa og þeirra samskipta sem hann átti við Rússa.
Samkvæmt New York Times og Washington Post skoða bandarískar leyniþjónustur nú hvort framboð Trumps hafi unnið með Rússum að tölvuárásum á Demókrataflokkinn, þar á meðal tölvupósta Hillary Clinton og kosningastjóra hennar, með það fyrir augum að ýta undir líkur á því að Trump ynni í kosningunum.