Ef framkvæmdavaldið grípur ekki inn í sjómannadeiluna verður löggjafarvaldið að gera það. Þetta sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, í Kastljósi í kvöld.
Krafa hefur komið fram um að fæðis- og dagpeningar sjómanna verði skattfrjálsir. Þessu hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafnað en lagt til að farið verið heildstætt yfir það hvernig farið er með fæðiskostnað og greiðslur vegna fæðis almennt, í skattalegu tilliti.
Haldinn verður sameiginlegur fundur atvinnuveganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í fyrramálið. Þorgerður Katrín mun mæta á þann fund. Páll sagði að ef Þorgerður Katrín myndi ekki koma með neina lausn á þeim fundi yrði löggjafarvaldið, þingið, að grípa inn í.
„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál, að það skuli standa á stjórnvöldum eða þessum tveimur ráðherraum sem með þetta höndla, sjávarútvegsráðherra og fjármálaráðherra. Stjórnvöld eru ábyrg fyrir því gagnvart þjóðinni að þessi auðlind sé nýtt. Það má ekki standa upp á þessi sömu stjórnvöld að það séu þau sem komi í veg fyrir að flotinn sigli úr höfn og til veiða.“