Eyrir Invest, stærsti eigandi Marel, hefur selt rúmlega tveggja prósenta hlut í félaginu. Kaupandinn er bandaríska fyrirtækið MSD Partners L.P. Það greiðir 285 krónur á hlut í viðskiptunum, sem er 6,5 prósent lægra verð en lokagengi bréfa í Marel á markaði í gær. Alls er kaupverðið tæplega 4,3 milljarðar króna. Eyrir Invest verður eftir sem áður stærsti einstaki eigandi Marel með 27,2 prósent hlut í félaginu. Aðrir stórir eigendur í félaginu eru íslenskir lífeyrissjóðir. Markaðsvirði Marel við lokun markaða í gær var tæplega 218 milljarðar króna.
Stærstu eigendur Eyris Invest eru Landsbankinn og feðgarnir Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest, og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.
Í framhaldi af viðskiptunum hefur stjórn Eyris Invest heimilað stjórnendum félagsins að innleysa B-hluti í Eyri Invest. Þeir eru í eigu fjárfesta, m.a. lífeyrissjóða. Samkvæmt upplýsingum frá Eyri Invest fer mjög stór hluti af því fé sem losað verður með sölunni á hlut í Marel í að innleysa B-hluti í félaginu.
Í tilkynningu frá Eyri Invest segir að viðskiptin muni auka sveigjanleika í rekstri Eyris og styrkja hluthafahóp Marel. Markaðsviðskipti Landsbankans hafi gert Eyri kauptilboð fyrir hönd MSD Partners, L.P. Með viðskiptunum verður bandaríska fyrirtækið sjöundi stærsti hluthafi Marel. „Eyrir Invest er langtímafjárfestir og hefur verið kjölfestufjárfestir í Marel síðan 2005. Marel starfar samkvæmt langtímastefnu sinni og nýleg kaup félagsins á MPS heppnuðust vel. Eyrir hefur mikla trú á möguleikum Marel til áframhaldandi vaxtar sem og getu félagsins til að skila góðri afkomu. Eyrir hyggst áfram vera kjölfestufjárfestir í Marel.“
MSD Partners, L.P., sem skráð er hjá SEC í Bandaríkjunum sem fjármálaráðgjafi, var stofnað árið 2009 af eigendum MSD Capital, L.P. til að gera lokuðum hópi fjárfesta kleift að taka þátt í fjárfestingum sem MSD Capital skipuleggur. MSD Capital var stofnað árið 1998 til að stýra eignum Michael Dell og fjölskyldu hans.
Árið 2016 var besta ár Marel frá upphafi. Veltan nam 983 milljónum evra en var 819 milljónir evra árið áður. Hagnaður var 76 milljónir evra og hækkaði um þriðjung milli ára.