Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, segir að engin ástæða sé til þess að flýta sölu á bönkunum. Ef söluferli ríkisins taki tíu ár þá sé það í „góðu lagi“. Þetta kemur fram í skrifum Benedikts á vef Viðreisnar þar sem hann fjallar um verkefnin á hans borði í fjórðu og fimmtu viku starfstíma hans.
Vanda þarf til verka
Í pistlinum kemur fram að Benedikt geti vel „ímyndað sér“ að 13 prósent hlutur ríkisins í Arion banka verði seldur fyrst en Kaupþing, eigandi 87 prósent hlutar í Arion banka, hyggst hefja söluferlið á bankanum í kringum páska og er horft til tvískráningu á bankanum í Svíþjóð og á Íslandi í gegnum Nasdaq kauphöllina. „Vanda þarf til undirbúnings. Vel kemur til greina að selja hlutina í áföngum. Ríkið á 13% hlut í Arion banka og ég get ímyndað mér að hann verði seldur fyrst, en slitabúið hefur sagst ætla að hefja ferlið nú um páskana. Þegar hlutabréf í bankanum verða skráð á markað verður auðveldara en ella að átta sig á verði og eftirspurn. Hugsanlegt er að þessi hlutur verði seldur á yfirstandandi ári, en alls ekki víst. Ég sé ekki að markaður verði fyrir fleiri bankahlutabréf hér innanlands í ár þannig að hinir bankarnir bíða. Ef söluferlið tekur tíu ár er það í góðu lagi og betra en að skapa óróa með óvönduðum vinnubrögðum.,“ segir í pistli Benedikts.Ríkið á Íslandsbanka að fullu og 98,2 prósent í Landsbankanum.
Eigendastefnan skýr
Samkvæmt nýrri eigendastefnu stjórnvalda, þegar kemur að bankakerfinu, er ekki gert ráð fyrir að ríkið muni eiga meira í endurreistu bönkunum þremur en 34 til 40 prósent hlut í Landsbanka Íslands. Afgangurinn af eign ríkisins í bönkunum verður seldur, en eins og fyrr segir, og Benedikt nefnir í pistli sínum, þá hefur ekki verið ákveðið hvernig staðið verður að sölunni.
Ríkið á 98,2 prósent hlut í Landsbankanum, sem er langsamlega stærsti banki landsins, og er stefnt að því að selja bróðurpartinn þegar hagfelld skilyrði eru fyrir hendi og þá í gegnum skráningu á markað. Ekki er fjallað um það nákvæmlega hvað teljast vera hagfelld skilyrði til sölu eða, en fram kemur að ástæða þess að ríkið vilji halda eftir 34 til 40 prósent hlut í Landsbankanum sé sú að það stuðli að stöðugleika í fjármálakerfi landsins og tryggi einnig nauðsynlega innviði þess.
Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu var fjallaðum eignarhluti ríkisins í fjármálakerfinu, og staðan skýrð með eftirfarandi hætti.
Landsbankinn hf. (98,2% eignarhlutur ríkisins)
- Stefnt er að því að ríkissjóður eigi verulegan eignarhlut, 34-40%, til langframa í því skyni að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi landsins og tryggja nauðsynlega innviði þess.
- Eignarhlutur ríkisins í bankanum verði að öðru leyti seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og jafnframt verði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkað.
Íslandsbanki hf. (100% eignarhlutur ríkisins)
- Stefnt er að því að selja allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi.
- Ríkið eignaðist 100% í Íslandsbanka sem hluta af stöðugleikaframlagi Glitnis við uppgjör slitabúsins. Eignarhald ríkisins á Íslandsbanka byggist á lögum nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, og skal því arðgreiðslum og söluandvirði bankans ráðstafað til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs.
Arion banki hf. (13% eignarhlutur ríkisins)
- Stefnt er að því að selja allan eignarhlut ríkisins þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og mun salan að öllum líkindum eiga sér stað í tengslum við sölu meirihlutaeigandans og skráningu bankans á hlutabréfamarkað.
- Ríkissjóður á um 84 milljarða króna skuldabréf á Kaupþing ehf. með veði í 87% hlut í Arion. Verði skuldabréfið ekki greitt lok janúar 2018 færist Arion banki að öllu leyti til ríkisins. Einnig er í gildi ábataskiptasamningur sem felur í sér greiðslur til ríkissjóðs seljist Arion banki á tilteknu verði.
Sparisjóður Austurlands hf. (49,5% eignarhlutur ríkisins)
- Stefnt er að því að selja allan eignarhlut ríkisins um leið og hægt er enda ekki markmið ríkisins að vera eigandi sparisjóðsins til langframa.