Til eru þekkt dæmi um að aðilar sem áttu innangengt í íslensku bönkunum þegar bankahrunið reið yfir hafi farið þaðan út með „fjárfúlgur í ferðatöskum“. Þetta hafi gert það að verkum að litlu hafi mátt muna að ekki hafi verið hefði verið hægt að anna eftirspurn fólksins í landinu eftir reiðufé þegar það fylltist óróleika og reyndi að taka slíkt út í mestu óvissunni. Í framhaldinu hafi Seðlabanki Íslands prentað verulega aukið lausafé til að mæta eftirspurn almennings. Þetta kemur fram í leiðara Morgunblaðsins í dag, en ritstjóri þess og helsti leiðarahöfundur er Davíð Oddsson, sem var seðlabankastjóri haustið 2008, þegar bankahrunið stóð yfir.
Leiðarinn fjallar að mestu um þá hugmynd Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að þrengja að notkun reiðufjár með lagasetningu. Benedikt sagði á Facebook-síðu sinni í lok janúar að hann ætli að undirbúa löggjöf „til þess að þrengja að svarta hagkerfinu þar sem bannað yrði að greiða laun út með reiðufé og allir þyrftu að borga hluti yfir ákveðnu verði í gegnum banka eða kreditkort þannig að viðskiptin yrðu rekjanleg.“ Þann 10. febrúar skipaði Benedikt svo starfshóp sem hefur það hlutverk að fjalla um umfang og áhrif skattaundanskota og skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap, ásamt því að gera tillögur um hvernig megi minnka svartra hagkerfið.
Leiðarahöfundurinn segir að þessar hugmyndir um að „takmarka aðganga að reiðufé með valdboði“ séu ekki vænlegar. Skoðun Seðlabanka Íslands á kreditkortaviðskiptum einstaklinga erlendis, tilraun vinstri stjórnarinnar um að koma inn á fólki rafrænum skilríkjum um hatti fjármálaráðuneytisins og aðgerð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að skilyrða umsókn um skuldaleiðréttingu við þá sem höfðu orðið sér úti um rafræn skilríki séu allt dæmi um sambærilegt valdboð. Öll þau spor hræði.
Í leiðaranum segir enn fremur:„Enn þá geymist það mörgum í minni þegar fólkið í landinu fylltist óróleika og þusti að bönkunum fyrir tæpum áratug og tók út handbært fé. Mátti þá litlu muna að anna mætti eftirspurn. En vitað er að hefði það ekki tekist hefði gripið um sig enn verri tilfinning hjá almenningi. Það eru líka þekkt dæmi um þá skuggahlið að þeir sem áttu innangengt í bankana fóru sumir út þaðan með fjárfúlgur í ferðatöskum sem gerði erfiðara um að mæta skömmtuðum óskum hinna. Í framhaldinu var prentað verulega aukið lausafé, sem geymt er í öflugum geymslum Seðlabankans og bankinn er því betur undirbúinn fyrir áhlaup en áður.“