Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 10 prósent, samkvæmt nýrri könnun MMR. Í síðustu könnun mældist fylgið 7,8 prósent, en flokkurinn fékk 5,7 prósenta fylgi í kosningunum í október síðastliðnum. Þetta er í fyrsta skipti frá því um mitt síðasta ár sem Samfylkingin mælist með fylgi sem nær tveimur tölustöfum.
Litlar breytingar eru á fylgi við aðra stjórnmálaflokka. Vinstri græn mælast stærsti flokkur landsins líkt og í síðustu könnun, með 27 prósent fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24,4 prósent fylgi, sem er hækkun um 0,6 prósentustig frá síðustu mælingu. Fylgi Pírata mælist 11,9%, sem er 1,7% minna en í síðustu könnun. Fylgi við Framsóknarflokkinn er 10,7% en var 9,7 í síðustu könnun.
Ríkisstjórnarflokkarnir Viðreisn og Björt framtíð mælast með 6,2 og 6,4 prósent, en mældust með 5,6 og 5,3 prósent í síðustu könnun. Flokkur fólksins mælist með 2,6 prósenta fylgi, en aðrir flokkar með minna en eitt prósent.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 2,3 prósentustigum meiri nú en í síðustu könnun, og er 34,9 prósent.
Könnun MMR var gerð dagana 1. til 5. febrúar og svarfjöldi var 904 einstaklingar. Vikmörk eru allt að 3,1 prósent, sem þýðir að líklega sé raunverulegt fylgi einhvers staðar á bili sem er 3,1% hærra eða lægra en fram kemur í könnuninni.