Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hefur beðist afsökunar á því að hafa sagst ekki geta keypt sér íbúð á þeim launum sem hún hefur sem þingmaður. Ummælin lét hún falla í Silfrinu á RÚV á sunnudag. Útborguð laun Ástu eftir skatta og gjöld eru um 800 þúsund krónur á mánuði.
Í stöðuuppfærslu á Facebook í dag biðst Ásta afsökunar á þessum orðum. „Þetta var sagt í hugsunarleysi og það var aldrei ætlun mín á nokkurn hátt að setja mínar fjárhagslegu aðstæður að jöfnu við aðstæður annars ungs fólks á Íslandi. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að aðstæður mínar eru ekki sambærilegar við aðstæður fólks almennt á Íslandi og ég skil vel hvernig þessi ummæli þóttu óviðeigandi og jafnvel særandi. Það sem ég vildi koma á framfæri í Silfrinu síðastliðinn sunnudag en týndist í umræðu um mína eigin stöðu er að hækkanir á húsnæði hafa verið langt fram úr því sem ég bjóst við og ég vildi beina kastljósinu á stöðu ungs fólks, sem er jafnvel nýkomið úr námi og vinnumarkað, og hvernig í ósköpunum það á að geta fetað sig á leigu og húsnæðismarkaði við þessar aðstæður. Aðstæður sem ég upplifði fyrir ekki svo löngu síðan og tengi ennþá mikið við.
Eitt af erindum mínum í stjórnmálum er að berjast fyrir bættum hag ungs fólks á Íslandi og ég vona að ég geti unnið til baka traust þessa hóps og haldið áfram að vinna að þeirra stóru hagsmunamálum. Ég læri af mistökum og geri betur næst. Því get ég lofað.“