Stjórnvöld í Bandaríkjunum ætla sér að herða verulega á innflytjendalöggjöf og reglu sem snúa að innflytjendum með það að markmiði að fækka stórkostlega innflytjendum sem ekki hafa leyfi til að vera í landinu samkvæmt laganna bókstaf.
Talið er að um 12 milljónir manna í Bandaríkjunum séu ekki með leyfi til að dvelja í landinu í lengri tíma um þessar mundir, og þar með hvorki með landvistarleyfi eða atvinnuleyfi (Undocumented immigrants).
Margar borgir í Bandaríkjunum hafa barist fyrir því að Donald Trump Bandaríkjaforseti og stjórnvöld undir hans stjórn, grípi ekki til þess ráðs að koma senda fólk úr landi, þar sem það geti skapað „panikk“ hjá milljónum manna og brotið upp fjölskyldumynstur um allt land, með tilheyrandi vandamálum og félagslegu óöryggi.
Í regluverkinu, sem fjallað er um ítarlega á vef Washington Post, segir meðal annars að innflytjendur verði sendir úr landi fyrir minnstu mögulega frávik frá reglunum, svo sem fyrir minniháttar brot af einhverju tagi, eða jafnvel bara grun um afbrot. Lögfræðingar samtaka innflytjenda segja að nú hafi stjórnvöld ákveðið að einblína á „alla“ þá sem ekki hafa tilskilin leyfi til að vera í landinu, en ekki einungis þá sem hafa þótt óæskilegir, t.d. Þá sem hafa framið alvarleg lögbrot. Þetta sé óásættanleg stefnubreyting sem muni ala á ótta og valda miklum vandræðum í Bandaríkjunum.
Árið 2015 voru 333 þúsund ólöglegir innflytjendur sendir úr landi, samkvæmt frétt Washington Post, en Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, var gagnrýndur nokkuð fyrir sína stefnu þegar komið að innflytjendum, og þá fyrir að ganga fram af of mikilli hörku.
Eitt af því sem gerir innflytjendamálin flókin í Bandaríkjunum eru ólíkar tegundir dvalar- og atvinnuleyfa sem veita misjafnlega mikinn rétt til samfélagsþátttöku í Bandaríkjunum. Fyrir vikið er hópurinn á hverjum tíma oft stór, sem er með útrunnin leyfi til að vera í landinu. Borgir eru sérstaklega með stóran hóp fólks sem ekki telst vera með tilskilin leyfi, en borgaryfirvöld hafa víðast hvar metið stöðuna þannig, að ekki borgi sig að ganga of hart fram gagnvart þessum hópi. Við það skapist meiri vandi en leysist.
Þessi stefnubreyting nú undir stjórn Trumps þykir, að mati lögfræðinga samtaka innflytjenda í Bandaríkjunum, ganga alltof langt og bjóða hættuninni heim.
Á móti hafa stjórnvöld sagt, að þau hafi ekki mannafla eða vilja til að fara á eftir hverjum og einum sem mögulega er ólöglega í landinu, á þeim tímapunkti. Þvert á móti verður einblínt áfram á að forgangsraða. Vegna þessara áforma um að víkka út heimildir stjórnvalda til að grípa til aðgerða gagnvart fólki, þá geti fólk átt á hættu að vera vísað úr landi með svo til fyrirvaralausum hætti.