Samtök atvinnulífsins (SA) hafa auglýst eftir einstaklingum sem starfa hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna eða hjá aðildarsamtökum þeirra til að gefa kost á sér í stjórnir lífeyrissjóða. Um er að ræða stjórnarsetu í alls sjö lífeyrissjóðum, þar á meðal nokkra af stærstu sjóðum landsins. Sjóðirnir sem um ræðir eru: Birta lífeyrissjóður, Festa lífeyrissjóður, Gildi - lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Rangæinga, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Stapi lífeyrissjóður.
SA auglýsir eftir stjórnarmönnum samkvæmt nýjum reglum sem tóku gildi í janúar síðastliðnum. Þær reglur kveða á um að SA eigi að óska „með áberandi hætti eftir því að hæfir einstaklingar, sem starfa hjá aðildarfyrirtækjum SA eða aðildarsamtökum SA, gefi kost á sér til starfa í stjórnum lífeyrissjóða.“
Í frétt um málið á vef SA segir að leitað sé eftir einstaklingum með fjölbreytta reynslu og þekkingu m.a. á lífeyrismálum, stjórnun, stefnumótun, áætlanagerð og reikningshaldi, lögfræðilegum málefnum og fjármálamarkaði.