Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist fagna því ef Arion banki selst á góðu verði og að eignarhald bankans verði dreift. Ríkið hafi áskilið sér rétt til að ganga inn í viðskiptin ef gengi þeirra verði lægra en 0,8.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Kaupþing vinni að því að ganga frá sölu á 40 til 50 prósenta hlut félagsins í Arion banka í lokuðu útboði til bandarískra fjárfestingarsjóða og íslenskra lífeyrissjóða. Kaupverðið mun þá nema á bilinu 70 til 90 milljörðum íslenskra króna en væntingar eru um að viðskiptin verði kláruð á allra næsta vikum.
Í samtali við Kjarnann tekur Benedikt fram að ekki séu komnar staðfestar fréttir af sölu á hlutum í Arion, en fagnar því ef verðið á bankanum er gott og ef salan leiðir af sér dreift eignarhald. „ Ríkið hefur áskilið sér rétt til að ganga inn í öll viðskipti sem eru á gengi lægra en 0,8. Það á við um öll viðskipti með þessi 87%, hvort sem það er til vogunarsjóða, lífeyrissjóða eða með öðrum hætti. Ef verðið er hærra og helmingur hluta selst eru það góðar fréttir og þýðir að ríkið mun fá skuldabréfið sitt greitt upp og þarf ekki að ganga inn í viðskiptin. Ríkið mun bíða átekta með sinn 13 prósent hlut í bankanum. Ég legg þunga áherslu á að hluturinn verði seldur á góðu verði með faglegum hætti. Við erum ekki að flýta okkur og bíðum eftir skráningu bréfa á markað.“
Kaupsamningar við bandarísku sjóðina eru langt komnir en áformað er að fjórir fjárfestingarsjóðir kaupi allt að 25 prósenta hlut í bankanum. Að minnsta kosti tveir þessara sjóða – Taconic Capital og Och-Ziff Capital – eru jafnframt á meðal kröfuhafa Kaupþings. Enginn einn þeirra verður með meira en 10 prósenta hlut í Arion banka en Taconic Capital hyggst vera með stærsta einstaka eignarhlutinn á meðal sjóðanna.
Sá vogunarsjóður er langsamlega umsvifamestur í kröfuhafahópi Kaupþings og átti í lok síðasta árs um 40 prósent allra krafna á hendur félaginu. Ríkið hefur forkaupsrétt að Arion banka ef Kaupþing hyggst selja hlut í bankanum á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé.
Samningar við lífeyrissjóðina eru ekki jafn langt á veg komnir en af hálfu Kaupþings er engu að síður búist við að niðurstaða fáist á næstunni um hversu mikil aðkoma þeirra verður.
Væntanleg sala Kaupþings á tugprósenta hlut í Arion í lokuðu útboði, sem ekki var útlit fyrir í ársbyrjun, þýðir að fyrirhugað almennt hlutafjárútboð bankans fer fram seinna en áður var áætlað.