„Veruleikinn er sá, tel ég vera pólitískt, að við séum að horfa upp á það…miðað við þessa umræðu hér að í raun og veru sé hér hreinn meirihluti Sjálfstæðisflokksins við völd með stuðningi tveggja flokka sem kjósa að tjá sig ekki í stórum málum.“ Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, á þingi í dag.
Fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu þingmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar harðlega fyrir að hafa ekki tekið þátt í tveimur sérstökum umræðum í þinginu í gær. Þetta gerðu þingmennirnir við upphaf þingfundar í dag undir liðnum fundarstjórn forseta. Umræðurnar voru annars vegar um skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána og hins vegar skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, reið á vaðið og sagði þetta hafa vakið athygli hans og margra annarra. Ekki síst í ljósi þess að engin mál frá ríkisstjórninni væru á dagskránni í dag og rödd þessara flokka heyrðist því ekki í hinni lýðræðislegu umræðu. „Maður veltir fyrir sér hvort þetta séu hin nýju stjórnmál sem þessir tveir flokkar hafa boðað.“
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, kom í kjölfarið. Hún sagði þessa tvo stjórnarflokka segja pass í þessum stóru málum. Það væri ekki góður bragur á þingstörfunum ef svona ætti þetta að vera, og bað forseta Alþingis að ræða málið. Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata, tók svo undir með þeim og kvartaði yfir því að flokkarnir hafi ekki séð sér fært að taka þátt í umræðunum. Henni þætti það mjög leitt. „Það hefur verið vaninn, jafnvel hjá litlum þingflokkum, að taka þátt í sérstökum umræðum, jafnvel þó það sé erfitt.“ Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði þögnina hafa verið ærandi. „Er ekki einmitt gert ráð fyrir því að þá komi rödd allra þingflokka fram, sjónarmið og áherslur í málum sem dregin eru hér fram í sérstökum umræðum?“
Birgir Ármannsson svaraði þingmönnum stjórnarandstöðunnar og sagði að málið sé „einhver sú kolvitlausasta fýlubomba sem ég hef séð stjórnarandstöðu reyna að sprengja.“ Hann sagði það átakanlegt ef málefnaþurrð stjórnarandstöðunnar væri með þessum hætti.
Orð Svandísar lét hún falla eftir að Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hafði komið Viðreisn og Bjartri framtíð til varnar. Enginn þingmaður Viðreisnar eða Bjartrar framtíðar tók til máls í þessum umræðum í dag. Nicole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar, ræddi málið síðar undir liðnum störf þingsins. Hún sagði að engum ætti að dyljast að Björt framtíð hefði verið á móti niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána, en hún hafi ekki tekið þátt í umræðunni því hún hefði ekkert meira um málið að segja. Henni þætti tíma þingsins betur varið í annað en keppni um það hver talaði hæst.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, svaraði líka gagnrýninni undir liðnum störf þingsins. Hún benti á að það hefði tekið Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar og núverandi fjármálaráðherra, mjög stuttan tíma að birta báðar þær skýrslur sem um var rætt eftir að hann tók embætti. Flokkurinn hafi ekki verið til þegar leiðréttingin var gerð og því hafi flokkurinn ekki formlega afstöðu í því máli.