Umhverfisstofnun ætlar að stöðva rekstur United Silicon, verði ekki ráðist í tafarlausar úrbætur í mengunarmálum. Frá þessu var grein í fréttum RÚV í kvöld en 14 daga frestur hefur verið gefinn til viðbragða.
Íbúar á Reykjanesi í nágrenni starfseminnar hafa kvartað undan líkamlegum einkennum vegna mengunar frá verksmiðjunni og kom fram í umfjöllun RÚV að ábendingum hafi „rignt“ yfir Umhverfisstofnun frá íbúum á Reykjanesi þar sem kvartað er undan lyktar- og reykmengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík. Verksmiðjan var gangsett í nóvember og hefur Umhverfisstofnun fylgst grannt með starfsemi hennar síðan þá. Í gær sendi stofnunin fyrirtækinu svo harðort bréf.
„Það er vegna þess að vandamál varðandi lykt og sýnilegan reyk frá verksmiðjunni eru orðin viðvarandi að okkar mati,“ sagði Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, í viðtal við RÚV. „Við höfum ekki séð að það hafi verið gerðar umtalsverðar umbætur. Við höfum á undanförnum dögum verið að fá til okkar á sjötta tug kvartana frá íbúum í Reykjanesbæ sem sumir hverjir kvarta yfir líkamlegum einkennum, sviða í hálsi og öðru slíku. Og við teljum bara tímabært að það verði gerðar þarna úrbætur sem um munar.“