Gangi áætlanir líftæknifyrirtækisins Genís á Siglufirði eftir munu allt að 100 manns starfa hjá því innan fimm ára, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Róbert Guðfinnsson, forstjóri fyrirtækisins, segir að mikil tækifæri felist í sölu og markaðssetningu á vörum fyrirtækisins sem eru fæðubótarefni sem hafa að geyma kítínfásykrur sem framleiddar eru úr rækjuskel.
„Ef ég verð ekki með 80 til 100 manns í vinnu á Siglufirði og tuttugu milljarða króna veltu eftir 4 til 5 ár mun ég líta svo á að mér hafi mistekist,“ segir Róbert í viðtali í Morgunblaðinu. Starfsemi fyrirtækisins er á Siglufirði en þar starfa nú 15 starfsmenn.
Genís hefur nú þegar fjárfest tvo milljarða í rannsóknum, vöruþróun og framleiðslu og getur það nú þegar framleitt um 100 þúsund mánaðarskammta af vörunni Benecta sem það hefur haft til sölu hér á landi síðasta árið, segir í Morgunblaðinu.
Róbert segir í viðtali við Morgunblaðið að nauðsynlegt sé að stórauka fjárfestingar í rannsóknum og þróun til að vinna meiri verðmæti úr því sem framleitt sé á Íslandi. Mikil vinna sé framundan, og allir þurfi að leggjast á eitt og róa í sömu átt.
Róbert hefur fjárfest fyrir milljarða í heimabæ sínum Siglufirði á undanförnum árum, og eru fjárfestingarnar í ferðaþjónustu, þar á meðal hótel- og veitingarstarfsemi, og afþreyingu sömuleiðis, til viðbótar við Genís. Þessari uppbyggingu hefur meðal annars fylgt uppgerð á gömlum húsum í bænum.