„Forsætisráðherra manar upp vantrauststillögu. Hún kemur,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í morgun.
Björn Leví hélt ræðu undir liðnum störf þingsins við upphaf þingfundar. Hann sagði þrjá ráðherra ríkisstjórnarinnar vera í vanda eftir þrjár þingvikur. „Hæstvirtur umhverfisráðherra sem á eftir að mæta hér í ræðustól Alþingis og útskýra villandi svar sitt við fyrirspurn háttvirts þingmanns Oddnýjar Harðardóttur um tilmæli til nefndar sem heyrir undir ráðherra.“ Þá þyrfti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að útskýra af hverju hún hafi hótað sjómönnum lögum á verkfall þeirra. Að lokum hafi forsætisráðherra orðið uppvís að því að leyna almenning upplýsingum.
„Í sérstökum umræðum um málið hér á miðvikudag bauð ég forsætisráðherra að svara spurningum um hvort upplýsingarnar vörðuðu almannahag og hvort ráðherra hafi brotið siðareglur. Ráðherra skautaði fram hjá þessum spurningum þrátt fyrir ítrekanir um að svara þeim. Þó viðurkenndi ráðherra, með leyfi forseta: „Ég hef aldrei í tengslum við þessa skýrslu lagt mat á hvort einhver efnisatriði umfram önnur vörðuðu almannahag. Það stóð aldrei neitt annað til en að hún kæmi fyrir almenningssjónir.“. Tilvitnun lýkur. Ráðherra viðurkenndi að hafa ekki athugað hvort efni skýrslunnar varðaði almannahag mtt frumkvæðisskyldu sinnar til birtingu slíkra upplýsinga.“
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi manað upp vantrauststillögu, og hún muni koma. „Fyrst þarf forsætisráðherra að svara þessum spurningum í ræðustól Alþingis, varða upplýsingarnar í skýrslunni sem hann faldi almannahag og braut ráðherra siðareglur - ellegar er það vantraustsvert í sjálfu sér að ráðherra víki sér ítrekað undan því að svara spurningum sem að honum er beint á Alþingi.“