Íslandsbanki hagnaðist um 20,2 milljarða króna eftir skatta á síðasta ári. Hagnaðurinn er nálægt því sá sami og bankinn skilaði árið 2015, þegar hann var 20,6 milljarðar króna. Samsetning hagnaðarins er þó annars eðlis. Í fyrra var hann fyrst og síðast vegna sölu á eignarhluta Borgunar í Visa Europe (Íslandsbanki er stærsti eigandi Borgunar með 63,5 prósent eignarhlut) og sterkum grunntekjum. Árið 2015 var hann hins vegar fyrst og síðast vegna virðisbreytingu útlána. Þ.e. lán sem höfðu verið bókfærð með afföllum reyndust skila meiru en reiknað hafði verið með. Íslandsbanki er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins.
Í afkomutilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að 1,7 milljarða króna einskiptiskostnaður hafi verið bókaður í ársreikning bankans vegna skemmda á húsnæði hans við Kirkjusand og flutnings í nýjar höfuðstöðvar. Myglusveppur fannst í gömlu höfuðstöðvum Íslandsbanka snemma á síðasta ári og í kjölfarið ákvað bankinn að flytja starfsemi sína í Kópavog.
Arðsemi eigin fjár var 10,2 prósent á síðasta ári og lækkaði á milli ár. Hagnaður af reglulegri starfsemi dróst líka saman um rúman milljarð króna og var 15,1 milljarður króna. Hreinar vaxtatekjur jukust hins vegar um 14 prósent og voru 31,8 milljarðar króna. Þá hækkaði vaxtamunur og var 3,1 prósent „að hluta vegna hærra vaxtaumhverfis og hækkandi eigin fjár“.
Heildareignir Íslandsbanka voru 1.048 milljarðar króna um síðustu áramót og útlán til viðskiptavina og lausafé voru 93 prósent af eignum bankans. Eiginfjárhlutfall hans var 25,2 prósent.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að árið í fyrra hafi verið mjög gott ár fyrir bankann og einkennst af mikilvægum áföngum í sögu hans. „Grunnrekstur bankans hélt áfram að styrkjast og tekjur voru stöðugar. Endurskipulagningu lánasafnsins er lokið, eignarhlutir í óskyldum rekstri hafa verið seldir og gæði eigna halda áfram að aukast.“