Hvíta húsið meinaði í gær nokkrum bandarískum fjölmiðlum aðgang að daglegum blaðamannafundi. Fjölmiðlarnir CNN, New York Times og Politico fengu ekki að vera með fulltrúa á fundinum og var þessari ákvörðun harðlega mótmælt.
Ritstjórnir allra fjölmiðlanna sögðu ákvörðunina fráleita og fordæmalausa. Hún væri til þess fallinn að grafa undan frjálsri fjölmiðlun, og gæfi til kynna að Hvíta húsið vildi aðeins hafa í kringum sig fjölmiðla sem flyttu fréttir sem þóknast stjórn Donalds Trump, Bandaríkjaforseta.
Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Trump í Hvíta húsinu, hefur gagnrýnt fjölmiðla harðlega fyrir þeirra framgöngu: Margt af því sem frá honum hefur komið hefur verið rakið sem rangindi, nánast umsvifalaust, af fjölmiðlum. Hann hefur sjálfur aldrei viðurkennt að fara með rangt mál, og það hefur Donald Trump ekki heldur gert.
Hann hefur sérstaklega gagnrýnt New York Times og segir fjölmiðilinn flytja „falskar fréttir“. Engin nákvæm efnisleg gagnrýni hefur þó komið fram, en New York Times hefur hins vegar endurtekið kannað hvort málflutningur Trumps standist skoðun og fyrirliggjandi staðreyndir, og hefur hann í mörgum tilvikum ekki gert það.