Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls, hefur afskrifað álversuppbyggingu í Helguvík, samkvæmt því sem fram kemur í ársfjórðungstölum fyrirtækisins fyrir síðasta ársfjórðung ársins 2016. Þar kemur fram að 152,2 milljóna dala tap hafi verið skráð vegna álversverkefnisins í Helguvík. Það eru um 16,5 milljarðar íslenskra króna.
Reyndar hefur lengi verið ljóst að uppbygging á álveri í Helguvík yrði ekki að veruleika þó nú virðist það formlega orðið ljóst. Síðast með alþjóðlegum gerðardómi sem féll fyrir jól, sem komst að þeirri niðurstöðu að HS Orka þyrfti ekki að standa við ákvæði raforkusamnings sem fyrirtækið undirritaði við Norðurál Helguvík í apríl 2007. Sá samningur var um hluta af þeirri orku sem átti að nota í álverinu, en í mjög langan tíma hefur HS Orka reynt að losna undan samningnum, enda verið staðfest að hann gæti ekki skilað fyrirtækinu arðsemi.
Gerðardómurinn komst að þeirri niðurstöðu undir lok síðasta ár að samningurinn á milli HS Orku og Norðuráls Helguvík væri ekki lengur í gildi. Fyrirtækið tók þó ekki strax ákvörðun um að slá áformin af, og brást við með því segjast ætla að kanna hvort mögulegt væri að afla orku til verkefnisins eftir öðrum leiðum.
Áður höfðu bæði forstjóri HS Orku og forstjóri Landsvirkjunar bent á að heimsmarkaðsverð á áli þyrfti að hækka um tugi prósenta til þess að álver í Helguvík gæti borið sig og að virkjanir sem ráðast þyrfti í til að sjá því fyrir orku gætu verið arðbærar.
Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra og núverandi forsætisráðherra, sagði í september 2016 við sérstakar umræður á Alþingi: „Ég sé ekki að það álver sé að verða sér út um rafmagn. Það virðist ekki vera að fæðast nein lausn á því og að öðru leyti þá sé ég ekki að það sé afl til að stefna á slík verkefni á næstunni.“ Hann bætti við að hann sæi ekki fyrir sér að álverum muni yfir höfuð fjölga á Íslandi í framtíðinni.