Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, bað Seðlabanka Íslands að kanna hvort einhverjir aðrir stæðu að baki tilboðum vogunarsjóða um kaup á hlut í Arion banka. Þar á bæ sé talið að svo sé ekki, heldur séu þetta fjárfestar sem ætli sér að vera í bankastarfsemi hér til nokkurrar frambúðar.
Þetta kom fram í svari ráðherrans við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, á Alþingi í dag. Katrín spurði að því hvort Benedikt vissi hverjir væru á bak við vogunarsjóðina og hvort að mat hefði verið lagt á það hvort þeir ætli sér að vera í bankastarfsemi áfram eða hvort þeir ætli sér að selja hlut sinn aftur, og þá væntanlega með hagnaði. Þá spurði hún líka hvort að mat hefði verið lagt á það hver efnahagsleg áhrif yrðu af því að hluturinn myndi ganga til ríkisins, eins og myndi gerast í lok næsta árs ef ekki hefði orðið af sölu. Hún spurði einnig að því hvort sala á hlut í Arion banka myndi koma í veg fyrir að hægt verði að endurskipuleggja fjármálakerfið í heild sinni, og benti á að ekki væri gert ráð fyrir neinni slíkri heildarendurskoðun í drögum að eigendastefnu ríkisins.
Benedikt greindi frá því að hann hefði beðið Seðlabankann að athuga hvort einhverjir aðrir stæðu á bak við þessi tilboð í Arion banka. „Ég taldi afar mikilvægt að vita það hvort þetta væru raunverulega þessir aðilar, sem allir eru erlendir, eða hvort þarna stæðu til dæmis einhverjir íslenskir fjárfestar að baki, en mér er sagt að svo sé ekki.“
Ráðherrann ítrekaði í seinni ræðu sinni að salan væri samkvæmt samkomulagi við slitabú Kaupþings, en ekki ríkið. Hann gæti bara tjáð sig um pólitísk áhrif en ekki efnahagsleg, og það væri ekki hentugt fyrir Ísland að eiga alla viðskiptabankana. Um endurskipulagningu bankakerfisins sagði hann einnig að það væri ekki ríkisins að endurskipuleggja Arion banka, vegna þess að ríkið ætti bara 13 prósenta hlut. Hann teldi ekki að salan myndi hafa mikil áhrif á framtíðina í bankakerfinu.