Bandaríkjadalur kostar nú 107 krónur, evran 113 og norska krónan 12,8 krónur. Ekki er nema eitt og hálft ár síðan að Bandaríkjadalurinn var í tæplega 140 krónum, evran í 150 og norska krónan í 19 krónum.
Mikil styrking krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum hefur verið stöðug síðustu vikur og bendir margt til þess að styrkingin verði viðvarandi á næstu mánuðum og fram eftir ári, ef Seðlabankinn beitir sér ekki á markaði til að veikja krónuna, eins og hann gerði ítrekað í fyrra.
Innan útflutningsfyrirtækja og ferðaþjónustunnar eru áhyggjuraddir farnar að heyrast, og spurt að því, hvar jafnvægið geti myndast. Samkeppnishæfni útflutningshliðar hagkerfisins minnkar eftir því sem krónan getur styrkist.
Sérfræðingahópur á vegum forsætisráðuneytis Sigurðar Inga Jóhannsson, þáverandi forsætsráðherra og formanns Framsóknarflokksins, tók saman upplýsingar um möguleg áhrif þess ef krónan myndi styrkjast áfram, en skýrsla hópsins var birt í lok árs.
Í samantekt úr henni segir meðal annar: „Styrking krónunnar er til marks um bætta stöðu Íslands. Mikil spurn er eftir íslenskum vörum og þjónustu sem styrkir gengið og gerir Ísland að dýrari kosti. Þessi staða kallar á gamalkunnar hættur og krefst mikils aga í hagstjórn. Styrking krónunnar og veruleg hækkun launa setur útflutningsatvinnuvegi í vanda og rýrir samkeppnishæfni hagkerfisins. Hin jákvæðu skilyrði sem leika nú um efnahagslífið geta því fljótt snúist upp í andhverfu sína. Þetta er mikilvægt að greina vel þegar líður að næstu skrefum í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta.“
Styrking krónunnar gagnvart helstu myntum í febrúar mánuði var um 9 prósent, og ef fram heldur sem horfir, þá verður verðið á Bandaríkjadal komið undir 100 krónur strax í mars eða apríl mánuði. En ef það er eitthvað sem er erfitt þá er það, að spá fyrir um gengi krónunnar fram í tímann.
Í fyrra styrktist gengið um 18,4 prósent gagnvart helstu myntum og vann Seðlabanki Íslands verulega á móti styrkingunni með kaupum á gjaldeyri. Hann hefur hins vegar ekki gert mikið af því upp á síðkastið.
Straumur ferðamanna til landsins hefur verið verulegur og var aukningin milli ára í janúar ríflega 60 prósent. Búist er við enn einu metárinu í fjölda ferðamanna á þessu ári, og má reikna með að gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðaþjónustunni fari jafnvel yfir 500 milljarða króna og heildarfjöldinn yfir 2,3 milljónir.
Þrátt fyrir ríflega tveggja mánaða sjómannaverkfall, sem hófst 14. desember, og lítið sem ekkert gjaldeyrisinnstreymi vegna sjávarútvegs á þeim tíma, þá styrktist gengi krónunnar verulega samhliða verkfallinu, einkum í seinni hluta janúar og fram eftir þessum mánuði. Það segir sína sögu um breytta stöðu hagkerfisins frá því sem var fyrir um áratug.
Sérfræðingahópurinn á vegum forsætisráðuneytisins segir í skýrslu sinni að betra sé að hugsa til framtíðar, þegar kemur að gengisstyrkingunni, og nefnir sérstaklega níu áhersluatriði.
Þeir eru þessir:
1. Vinnumarkaðsumbætur þarf að setja á oddinn
- Efla vinnumarkaðsumgjörð og stöðu ríkissáttasemjara og vinna eftir samkomulagi um jöfnun lífeyrisréttinda, m.a. með jöfnun launa á almennum og opinberum vinnumarkaði
2. Tímabært er að endurskoða peninga- og gengisstefnu
- Endurskoðun snúist um hvernig skapa megi stöðugra og fyrirsjáanlegra efnahagsumhverfi til framtíðar
3. Markmiðum laga um opinber fjármál þarf að fylgja eftir af festu
- Mikilvægt er að fjármálastefna hins opinbera haldi og hún sé reist á traustum forsendum
4. Ákvarðanataka og aðgerðir í málefnum ferðaþjónustunnar eru nauðsynlegar
- Ríkisstjórnin taki skýra afstöðu til stýringar, skattlagningar og gjaldtöku og samhæfi stofnanaumgjörð ferðaþjónustunnar
5. Varúðarsjóður stofnaður
- Góðar aðstæður eru til að byggja upp varúðarsjóð með auðlindatekjum, svo sem arðgreiðslum orkufyrirtækja í eigu ríkissjóðs. Framleiðnivettvangur settur á laggirnar
- Stjórnin stofni framleiðnivettvang til að koma með tillögur um aukna framleiðni á einstökum sviðum
6. Framleiðnivettvangur settur á laggirnar
- Stjórnin stofni framleiðnivettvang til að koma með tillögur um aukna framleiðni á einstökum sviðum
7. Afnám fjármagnshafta við réttar aðstæður
- Losa enn frekar um höft á útflæði á næstunni að því marki sem kostur er með hliðsjón af áætlun stjórnvalda um losun hafta og stöðu aflandskróna sem bundnar eru inni í hagkerfinu.
8. Viðbótarheimild til erlendra fjárfestinga lífeyrissjóða
- Bæta við heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis fjárhæð sem nýtanleg væri hvenær sem er innan ársins
9. Aukið aðhald í rekstri hins opinbera
- Opinber fjármál styðja ekki nægilega við hagstjórn við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðarbúskapnum.