Landsbankinn telur að bankinn hafi orðið af 1.930 milljónum króna hagnaði þegar hann seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun til hóps einkafjárfesta og stjórnenda fyrirtækisins á 2,2 milljarða króna. Því liggur fyrir að sá hagnaður sem Landsbankinn, sem er nánast að öllu leyti í eigu ríkisins, telur sig hafa orðið af er rúmlega 250 milljónum krónum lægri en heildarsöluverðið á hlutnum var haustið 2014, þegar hann var seldur bak við luktar dyr til hóps sem stóð að Eignarhaldsfélaginu Borgun.
Þetta kemur fram í ársreikningi Íslandsbanka. Ástæða þess er sú að Íslandsbanki er stærsti eigandi Borgunar með 63,5 prósent eignarhlut og því er Borgun talið sem dótturfélag bankans í uppgjöri hans.
Stefndi og vill fá skaðabætur
Landsbankinn stefndi Borgun, Hauki Oddssyni, forstjóra Borgunar, BPS ehf. (félag í eigu stjórnenda og starfsmanna Borgunar) og Eignarhaldsfélaginu Borgun þann 12. janúar 2017. Eignarhaldsfélagið Borgun og BPS eru þeir aðilar sem keyptu hlut Landsbankans haustið 2014. Málið var höfðað til viðurkenningar á skapabótaskyldu þeirra vegna þess að Landsbankinn telur sig hafa orðið af söluhagnaði við sölu á hlut sínum í Borgun þar sem að stefndu hefðu leynt upplýsingum um sölu á hlut í Visa Europe til Visa Inc. og þeim réttindum sem fylgdu hlutnum. Þar munar mestu um hlutdeild í söluhagnaði Visa Europe, sem reyndist á endanum vera 6,2 milljarðar króna.
Landsbankinn hefur ekki vilja gefa upp hver skaðabótakrafa bankans vegna málsins sé. Í ársreikningi Íslandsbanka segir að krafa Landsbankans sé ekki skilgreind í stefnunni. Þar komi hins vegar fram að bankinn meti að hann hafi orðið af hagnaði upp á 1.930 milljónir króna með því að selja hlut sinn í Borgun. Um er að ræða 31,2 prósent þess hluta af 6,2 milljörðum króna sem Borgun fékk í sinn hlut vegna sölunnar á Visa Europe.
Milljarðatap bankans á sölunni
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að ef Landsbankinn hefði haldið 31,2 prósent eignarhlut sínum í Borgun, í stað þess að selja hann haustið 2014, væri virði hlutarins að minnsta kosti um 5,9 milljarða króna virði, samkvæmt síðasta verðmati sem gert var á hlutnum. Auk þess hefði bankinn fengið rúmlega 2,4 milljarða króna greidda í arð. Samanlagt hefði hluturinn því getað skilað bankanum að minnsta kosti 8,3 milljörðum króna ef hann hefði verið seldur nú og Landsbankinn notið síðustu þriggja arðgreiðslna sem greiddar hafa verið út úr Borgun.
Þess í stað var hluturinn seldur á 2,2 milljarða króna í nóvember 2014.