Íbúðaverð á landinu öllu hækkaði um 1,8 prósent í febrúar og er þetta sjöundi mánuðurinn í röð þar sem verðhækkunin er yfir einu prósenti milli mánaða. Á þessum sjö mánuðum hefur húsnæðisverð á Íslandi hækkað um 12,7 prósent. Þetta er dregið saman í greiningu Íslandsbanka, sem er unnin úr tölum Hagstofunnar. Ástæða er til að hafa vakandi auga fyrir því hvort verðbóla kunni að vera að myndast á íbúðamarkaði um þessar mundir, segir bankinn.
Íbúðaverð á landsbyggðinni hækkar nú nokkuð hraðar en íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu, en hækkun á landsbyggðinni var 2,4 prósent í febrúar á meðan hún var 1,6 prósent á íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu og 1,4 prósent í sérbýli. Þetta hefur verið þróunin síðustu mánuði, að íbúðaverð á landsbyggðinni hækki umfram höfuðborgarsvæðið.
Þegar litið er yfir síðastliðið ár nemur hækkun íbúðaverðs 16 prósentum, en slíkur hraði í hækkunum hefur ekki mælst síðan í upphafi ársins 2008. Raunverð íbúðarhúsnæðis hefur á þessum tíma hækkað um 13,8 prósent, þar sem verðbólga hefur verið lítil og nokkuð stöðug. Þetta er mesta raunverðshækkun á íbúðarhúsnæði sem mælst hefur frá því í apríl 2006. Raunverð íbúða er nú orðið hátt í sögulegu samhengi og nálægt því sem það fór hæst í síðustu uppsveiflu, segir Íslandsbanki.
Mikil hækkun launa, fjölgun starfa, vöxtur deilihagkerfisins og lítið framboð nýbygginga eru helstu ástæðurnar fyrir þessari hröðu hækkun íbúðaverðs að mati bankans. Laun hafi hækkað um tæplega níu prósent á síðustu tólf mánuðum, störfum fjölgað um 7,6 prósent á sama tíma og fjöldi ferðamanna aukist verulega.
Merki um þenslu og ástæða til að óttast verðbólu
Bankinn segir íbúðamarkaðinn nú hafa mörg einkenni þenslu. Fyrir utan mikla hækkun á verði hafi heildarfjöldi íbúða á söluskrá ekki verið minni eins langt aftur og gögn eru til um. 920 íbúðir voru auglýstar til sölu undir lok síðasta árs, 35 prósentum færri en á sama tíma árið á undan. Þá hafa íbúðir aldrei selst eins hratt að meðaltali og nú, en meðalsölutími íbúða er 1,6 mánuðir.
Þá bendir bankinn á það að eftir að verðþróun á íbúðarhúsnæði hafi fylgt launaþróuninni nokkuð vel í þessari uppsveiflu sé nú farið að skilja þarna á milli. Þetta hefur verið að gerast undanfarna mánuði, þar sem hægt hefur á kaupmáttaraukningu á sama tíma og hækkanir á húsnæðisverði hafa orðið hraðari. „Gefur það ástæðu til að hafa vakandi auga fyrir því hvort verðbóla kunni að vera að myndast á íbúðamarkaði um þessar mundir.“