Valdimar Ármann hefur tekur við starfi forstjóra GAMMA Capital Management á Íslandi á morgun. Gísli Hauksson, sem er annar stofnandi GAMMA og sem hefur verið forstjóri fyrirtækisins í níu ár, tekur við starfi stjórnarformanns GAMMA. Hann stýra uppbyggingu starfsemi fyrirtækisins í New York og London, þar sem hann býr, auk þess sem hann mun móta stefnu GAMMA á Íslandi. Valdimar Ármann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra sjóða hjá GAMMA undanfarin ár og var meðal fyrstu starfsmanna félagsins.
Samhliða þessu hefur Ingvi Hrafn Óskarsson störf hjá GAMMA sem framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga og fyrirtækjaverkefna. Guðmundur Björnsson, sem er framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, fjármála og áhættustýringar hjá GAMMA, verður staðgengill forstjóra. Agnar Tómas Möller verður framkvæmdastjóri sjóða. Um leið lætur Lýður Þór Þorgeirsson af störfum hjá GAMMA.
Í tilkynningu vegna þessa segir Gísli Hauksson að skipulagsbreytingarnar nái fram tveimur mikilvægum markmiðum í rekstri GAMMA. „Skerpt er enn betur á ábyrgð og verkefnum stjórnendateymisins á Íslandi með Valdimar Ármann í forystu mjög öflugs hóps einstaklinga. Starfsmenn og sjóðsstjórar GAMMA hafa náð framúrskarandi árangri undanfarin ár með frábærri ávöxtun sjóða og fyrirtækjaverkefna. Valdimar hefur gegnt lykilhlutverki í þeirri þróun og býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og mikilli reynslu af fjármálamarkaði.“
GAMMA Capital Management er nú með rúmlega 120 milljarða króna í stýringu. Viðskiptavinir félagsins eru stofnanafjárfestar eins og lífeyrissjóðir og tryggingafélög, efnameiri einstaklingar og bankastofnanir, innlendar og erlendar. Þá eru sjóðir í rekstri hjá GAMMA meðal stærstu fjárfesta á íslenskum fasteignamarkaði og reka meðal annars yfir 1.250 íbúðir ásamt því að standa að byggingu og þróun hátt í 1.800 íbúða. Fasteignastarfsemi sjóða í rekstri hjá GAMMA er rekin af félögunum Almenna leigufélaginu, Upphafi fasteignafélagi og Heild fasteignafélagi. Sömuleiðis eru stærstu fyrirtækjaskuldabréfasjóðir á Íslandi í rekstri hjá GAMMA.