Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, segir að valdahópur í íslenska dómskerfinu hafi tekið til við að koma Hönnu Birnu Kristjánsdóttur frá sem innanríkisráðherra með því að nota „tylliástæður sem dugðu.“ Þetta kemur fram í grein eftir Jón Steinar sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér embætti innanríkisráðherra í nóvember 2014 vegna Lekamálsins svokallaða. Nokkrum dögum áður hafði Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður hennar, hlotið átta mánaða skilorðsbundin fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að leka trúnaðarupplýsingum úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla í nóvember 2013.
Umboðsmaður Alþingis birti síðan frumkvæðisathugun á samskiptum Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna rannsóknar Lekamálsins í janúar 2015. Þar sagði hann að fyrrverandi innanríkisráðherra hefði gengið langt út fyrir valdsvið sitt. Í niðurstöðu umboðsmanns kom fram að Hanna Birna hefðiu beðist afsökunar á samskiptum sínum við Stefán og framgöngu sinni í þeim.
Dauðasynd Hönnu Birnu
Í grein Jóns Steinars, sem veitti Hönnu Birnu lögfræðilega aðstoð við að svara erindi Umboðsmanns Alþingis um samskipti hennar við Stefán Eiríksson, segir að Hanna Birna hafi skipað þriggja manna nefnd til að ráðast í úrbætur á ástandi Hæstaréttar. Þetta hafi gerst í kjölfar þess að hann hafi gefið út bókina „Veikburða Hæstiréttur“ árið 2013, en í henni var að finna umfjöllun um það sem Jón Steinar kallar afar slæmt ástand dómstólsins og rökstuddar tillögur um úrbætur.
Jón Steinar segir að nefndin hafi verið „utankerfisnefnd“ í þeim skilningi að „valdahópurinn í dómskerfinu“ hafi ekki fengið að ráða hverjir sætu í henni. „Það þótti þeim dauðasynd. Við þessu varð hópurinn að bregðast og við þessu brást hann svo um munaði. Fyrst var tekið til við að koma ráðherranum frá. Til þess voru notaðar tylliástæður sem dugðu. Þegar nefndin skilaði tillögum sínum var kominn nýr og „samstarfsfúsari“ ráðherra. Nefndin var sett af og einn af búsmölum valdahópsins fenginn til að þynna út tillögur nefndarinnar í samráði við nefndan valdahóp í dómskerfinu.“ Ráðherrann sem tók við af Hönnu Birnu var Ólöf Nordal.
Skorar á nýja valdahafa að ganga til verka
Jón Steinar segir í greininni að nú sé komin ný ríkisstjórn og nýr dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen. Hún hafi sýnt að hún hafi skoðanir og sé tilbúin að láta gott af sér leiða á grundvelli málefnalegra röksemda en ekki þrýstings klíkuhópa. „Það er ástæða til að skora á hana og félaga hennar í ríkisstjórn að hrista nú af sér hlekkina og ráðast til þeirra verka í dómskerfinu sem allir ættu að sjá að styðjast aðeins við sterk málefnaleg rök og eru til þess fallin að bæta þetta kerfi til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.“
Jón Steinar segir að fyrsta verkið sem ráðast ætti í sé að birta opinberlega upplýsingar aftur í tímann um fjármálatengsl dómara Hæstaréttar í öllum íslensku bönkunum og eftir atvikum við aðrar stofnanir. Samhliða ætti að kortleggja hvernig dómararnir hafi raðast í mál gegn fyrirsvarsmönnum bankanna í málum sem rekin hafa verið gegn þeim á umliðnum árum. Í byrjun desember var greint frá því í fjölmiðlum að dómarar við Hæstarétt hefðu átt hlutabréf og aðra hagsmuni í föllnu íslensku bönkunum fyrir hrun en samt sem áður dæmt í málum gegn forsvarsmönnum sömu banka. Jón Steinar sagði í Kastljósi 7. desember í fyrra að hann teldi blasa við að Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, hafi verið vanhæfur til að dæma í málum þeirra manna sem stýrðu íslensku bankakerfi fyrir hrun. Ástæðan sé sú að hann hafi átt hlut í Glitni og hafi tapað á falli bankans. Jón Steinar sagði það ekki vera trúverðugt að maður sem sé hluthafi í banka sem sé til umfjöllunar í máli dæmi í slíku máli.
Í grein Jóns Steinars í Morgunblaðinu í dag leggur hann einnig til að reglum um nýskipan dómara verði breytt, að sjálfdæmi þeirra í þeim málum verði afnumið, að dómurum við Hæstarétt verði fækkað í fimm og að dómarar í Landsdómi, sem tekur til starfa á næsta ári, verði í mesta lagi 12. Þá vill hann að hvert mál fari ekki á fleiri dómstig en tvö og að breyting verði gerð á á reglum um ritun atkvæða í fjölskipuðum dómum á þann veg að einstakir dómarar leggi nöfn sín við atkvæði sín.
Hann segir að nýir valdhafar í landinu myndu „treysta stöðu sína í augum almennings ef þeir sýndu í verki kjark og dug til að ganga hér til verka, sem allir myndu skilja að helguðust aðeins af röksemdum um bætt vinnubrögð og heiðarleika, en tækju ekki mið af óskum “hinnar nýju stéttar““.