Skiptar skoðanir eru um það hvort leggja eigi áherslu á að hækka þak á greiðslum til fólks í fæðingarorlofi eða lengja orlofið, eða gera bæði. Frumvarp um lengingu fæðingarorlofsins er nú í umsagnarferli á Alþingi, en Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður þess. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að hækka greiðslurnar, og er frumvarp þess efnis frá Þorsteini Víglundssyni, félags- og jafnréttismálaráðherra, væntanlegt.
Jafnréttisstofa er eindregið fylgjandi því að frumvarpið nái fram að ganga og segir lengra fæðingarorlof verða mikla lífsgæðabót fyrir mæður, feður og ungabörn. „Það myndi draga úr streitu og álagi á fjölskyldur, byggja aftur upp sterkara samband barna og foreldra og gera það vænlegra að bæta við barni eða eignast sitt fyrsta barn.“
Það er skylda samfélagsins að búa sem allra best að börnum og foreldrum ungra barna, segir Jafnréttisstofa. „Það er atvinnulífinu í hag að vinnuaflið haldist stöðugt með jafnri fjölgun barna sem með tíð og tíma bætast við mannauðinn og munu taka við fjölbreyttum störfum. Það eru meiri hagsmunir að búa vel að ungum börnum, minni hvað það kostar.“
Jafnréttisstofa bendir einnig á að frjósemishlutfall á Íslandi hefur lækkað verulega á síðustu árum, eftir að hafa verið nokkuð hátt á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd. „Þetta þýðir að þjóðin fjölgar sér ekki lengur, til lengri tíma litið, heldur má búast við fækkun nema að innflutningur fólks komi þar á móti.“ Þetta sé áhyggjuefni og það sé ekki nokkur vafi á því að niðurskurðurinn í fæðingarorlofskerfinu eftir hrun hafi haft mjög slæm áhrif, meðal annars að fólk fækkaði eða hætti við barneignir. Frjósemistölurnar sýni það skýrt og skorinort. „Þakið var orðið svo lágt að það kom verulega niður á fjárhag foreldra og leiddi til þess að feður styttu orlof sitt verulega. Því miður er það ennþá þannig að karlmenn hafa almennt hærri laun en konur og því munaði meira um þeirra laun í fæðingarorlofinu.“ Því þurfi að endurreisa fæðingarorlofskerfið, og stofnunin hefur áður sagt að það verði gert með hærri greiðslum, svo feður taki frekar orlof.
Annað vandamál sé hversu stutt fæðingarorlofið sé. Frá árinu 2003, þegar fæðingarlof varð níu mánuðir, hafi miklar rannsóknir verið gerðar á áhrifunum á fjölskyldur og samfélagið. „Niðurstöðurnar sýna ótvírætt jákvæð áhrif fæðingarorlofsins á sambönd/hjónabönd, tengsl barna og foreldra, aukin tengsl feðra sérstaklega, jafnari verkaskiptigu á heimilum, minni áhættuhegðun karla o.fl,“ segir Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, í umsögninni. Þá hafi verið gerð alþjóðleg rannsókn á skólabörnum, sem hafi sýnt sterkari tengsl íslenskra barna við föður sinn en í nokkru öðru þátttökulandi. „Dr. Ársæll Arnarsson sem stýrði könnuninni hér á landi var ekki í nokkrum vafa um að skýringuna væri að finna í fæðingarorlofi feðra.“
ASÍ og BSRB vilja lengja, BHM hækka
ASÍ fagnar frumvarpinu, og segist telja að lenging fæðingarorlofsins rúmist vel innan þess hluta tryggingagjalds sem Fæðingarorlofssjóður fékk á árunum 2012 til 2013, það er 1,28 prósent af tryggingagjaldinu. Þetta var lækkað um næstum helming árið 2014. Því þurfi ekki að hækka tryggingagjaldið til að lengja fæðingarorlof, heldur eingöngu færa til líkt og lagt er til í frumvarpinu.
BSRB er sömu skoðunar og ASÍ, og telur að hægt sé að lengja fæðingarorlofið með tilfærslum á tryggingargjaldinu. Kröfur BSRB séu þær sömu og tillögur starfshóps um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála, að fæðingarorlof verði tólf mánuðir, greiðslur verði óskertar upp að 300 þúsund krónum en foreldrar fái 80% af viðmiðunartekjum umfram það og að hámarksgreiðslur verði 600 þúsund.
BHM er einnig fylgjandi því að fæðingarorlof verði lengt, en segir að það sé mikilvægt að forgangsraða auknum framlögum til málaflokksins með þeim hætti að hækkun hámarksgreiðslna gangi fyrir lengingu fæðingarorlofs. „Lenging fæðingarorlofstímabilsins á sama tíma og þak er á greiðslum er aðeins til þess fallið að skekkja enn frekar stöðu kynjanna á vinnumarkaði.“ Þak á hámarksgreiðslum vinni í raun gegn markmiðum laganna um fæðingar- og foreldraorlof vegna þess að það skekki stöðu kynjanna. Markmiðum laganna verði best náð með sem minnstri tekjuskerðingu og með því að skipta orlofinu jafnt á milli tveggja foreldra. „Það hlýtur að vera langtímamarkmið löggjafans að svo verði, enda stuðlar það ekki að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði að mæður taki nær alltaf lengra orlof en feður,“ segir í umsögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM.
Hjúkrunarfræðingar segja áherslu ekki á velferð barna
Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hvort foreldri um sig fái fimm mánaða óframseljanlegt orlof, og svo verði tveir mánuðir til viðbótar sem foreldrar ráði hvort taki. Þetta er gert af jafnréttisástæðum, til að reyna að tryggja að feður taki sitt orlof og mæður taki ekki allt orlofið og séu frá vinnumarkaði allan þennan tíma.
Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga þykir með þessu sýnt að frekar sé verið að leggja áherslu á jafnréttissjónarmið varðandi atvinnuþátttöku foreldra „fremur en að tryggja barninu lengri samvistir við foreldra sína. Tilgangurinn verður því ekki fyrst og fremst velferð barnsins heldur er þörfum þess fórnað fyrir að reyna að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.“ Félagið vill að hægt sé að framselja allt að þrjá mánuði til viðbótar milli foreldra, því annars muni börn tapa fimm mánuðum í samvistum við foreldra sína ef annað foreldrið af einhverjum orsökum getur ekki tekið fæðingarorlof.
Landspítalinn segir einnig að æskilegt væri að foreldrar hefðu sjálfdæmi um ráðstöfun fæðingarorlofstíma með barninu frekar en að skiptingin milli foreldra sé bundin í lög. Spítalinn bendir á í þessu samhengi að það sé misræmi milli réttinda barns sem á tvo foreldra sem taka jafnan þátt í umönnun, og þeirra barna sem eiga aðeins eitt virkt foreldri. Börn sem eiga bara eitt foreldri fái styttri tíma með foreldrinu en önnur börn. Félagsráðgjafar við spítalann segja að frumvarpið feli í sér forræðishyggju, þar sem foreldrum sé ekki frjálst að velja með hvaða hætti fæðingarorlofstíma með barninu sé ráðstafað.