Það kemur ekki til greina að hleypa aflandskrónueigendum úr landi ef það þýðir að ekki verði hægt að fara í fullt afnám hafta. Þetta segir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson. Hann segir enga stefnubreytingu eða áherslubreytingu hafa orðið hvað þetta varðar við ríkisstjórnarskipti.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, spurði Bjarna um þetta í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Sigmundur talaði um fréttir síðustu daga, um að til standi að semja við kröfuhafa sem ekki vildu taka þátt í útboði Seðlabankans á síðasta ári, um að hleypa þeim út úr landinu með peninga sína. Það hefði verið grunnforsenda útboðsins að allir væru meðvitaðir um að þeir sem ekki tækju þátt í því myndu sitja eftir og fara aftast í röðina. „Er það stefnan að hverfa frá þessari ákvörðun?“ spurði Sigmundur Davíð.
„Við ætlum ekki að fórna neinu til þess að gera þessum aðilum mögulegt að komast út úr landinu með sínar eignir ef að það þýðir á einhvern hátt að eftir sitji allur almenningur, fyrirtækin í þessu landi, sveitarstjórnir og aðrir, lífeyrissjóðir, í höftum með einhvern vanda. Um þetta hefur málið snúist allan tímann. Það hefur engin stefnubreyting orðið á því að það kemur ekki til greina að skapa einhverja lausn fyrir aflandskrónueigendur sem ekki felur það um leið í sér að hægt verði að fara í fullt afnám hafta,“ sagði Bjarni.
Sigmundur Davíð spurði Bjarna einnig um þær breytingar sem gerðar voru hjá nýrri ríkisstjórn að færa málefni Seðlabankans frá fjármálaráðuneytinu og til forsætisráðuneytisins. Hann vitnaði í svar Bjarna við fyrirspurn Kjarnans um málið, þar sem fram kom að vegna sjálfstæðis Seðlabankans væri æskilegt að yfirstjórn hans og samþykkt peninga- og gengisstefnu sé í öðru ráðuneyti en því sem fer með fjármál ríkisins. Sigmundur Davíð spurði hvenær Bjarni hefði uppgötvað þetta, hvort það hefði verið áður en hann tók við embætti fjármálaráðherra eða á meðan, og hvaða hagsmunir hefðu orðið ofan á hjá honum sjálfum þegar hagsmunaárekstrar hefðu komið upp.
Bjarni svaraði því til að þetta væru ein rökin fyrir því að færa málefni Seðlabankans milli ráðuneyta. Það væri vegna tiltölulega nýrrar lagabreytingar, og meðal annars vegna þess að Seðlabankinn geti við vissar aðstæður kallað eftir framlagi frá ríkinu. Bjarni segist ætla að lyfta upp því hlutverki forsætisráðuneytisins sem hafi með hagstjórn almennt að gera, og ráða inn sérfræðinga í forsætisráðuneytið í þessu skyni.