Landsbankinn auglýsir í dag til sölu eignarhluti í tólf óskráðum félögum. Hlutirnir eru auglýstir í samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna, sem var samþykkt fyrir ári síðan.
Hlutirnir eru meðal annars auglýstir í Fréttablaðinu í dag, en þeir eru ýmist í eigu bankans eða Hamla fyrirtækja ehf., dótturfélags bankans.
52,9% hlutur í Fasteignafélaginu Borg og 32,9% í Fasteignafélaginu Sunnubraut 4 ehf. eru auglýstir til sölu, auk 21,3% í Grundarstræti ehf. og 14% í Hvetjandi ehf. Þá eru hlutir í Ísfélagi Vestmannaeyja, Seljalaxi og Sparisjóð Suður-Þingeyinga meðal þeirra hluta sem eru auglýstir.
Landsbankinn innleiddi nýja stefnu og verkferla um sölu eigna í fyrra, eftir að bankinn hafði verið gagnrýndur harðlega vegna sölu sinnar á eignarhlut í Borgun. Sú sala var ekki gerð í opnu söluferli heldur var samið við áhugasama kaupendur í lokuðu ferli.
Ríkisendurskoðun gerði svo fjölmargar athugasemdir við það hvernig Landsbankinn stóð að sölu á fjölmörgum eignum sínum árin 2010 til 2016, einna helst Vestia, Icelandic Group, Promens, Framtakssjóði Íslands, IEI, Borgun og Valitor, í skýrslu sem var gerð opinber í nóvember síðastliðnum. „Allar þessar sölur fóru fram í lokuðu ferli og í sumum tilvikum fékkst líklega lægra verð fyrir eignarhlutina en vænta mátti miðað við verðmætin sem þeir geymdu,“ sagði Ríkisendurskoðun.