Launaþróun þingmanna er svipuð og hjá öðrum hópum á vinnumarkaði, borið saman við árið 2006, eftir að ákveðið var að lækka starfstengdar greiðslur til þeirra nýverið. Þetta er niðurstaða útreikninga fjármálaráðuneytisins, sem birtir eru á vef ráðuneytisins.
Fjármálaráðuneytið bað Hagstofu Íslands um að taka saman upplýsingar um þróun launakjara alþingismanna frá árinu 2006. Það er sama tímabil og greining á vegum aðila vinnumarkaðarins á vettvangi SALEK hafi byggst á, og sama tímabil og kjararáð hefur ákveðið laun þingmanna.
Laun alþingismanna hafa verið deiluefni eftir að kjararáð ákvað á kjördag að hækka þau verulega. Forsætisnefnd Alþingis tók ákvörðun um það nýlega að lækka starfstengdar greiðslur, sem þingmenn fá ofan á laun sín, til þess að koma til móts við gagnrýni á hækkunina. Ferðakostnaður þingmanna var lækkaður um 54 þúsund krónur og starfskostnaður um 50 þúsund krónur. Alþingi hefur sagt að þessu megi jafna við 150 þúsund króna launalækkun fyrir skatt.
Samantekt Hagstofunnar tekur ekki til ákvörðunar forsætisnefndar, enda komu þær til framkvæmdar nú um mánaðamótin.