Eigendur Brúneggja hafa óskað eftir því að félagið verði tekið til gjaldþrotameðferðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. „Enginn atvinnurekstur þolir það að missa nær allar tekjur sínar svo að segja á einni nóttu en sitja eftir með tilheyrandi kostnað og útgjöld,“ segir í tilkynningunni.
„Eigendur Brúneggja harma þá vankanta í starfseminni sem fundið hefur verið að á liðnum misserum en harma ekki síður að þessi verði endalok fyrirtækisins. Nú er mál að linni.“
Nær öll eggjasala Brúneggja stöðvaðist strax eftir að Kastljós á RÚV fjallaði um starfsemina og fordæmalaus afskipti Matvælastofnunar af eggjabúum Brúneggja í nóvember síðastliðnum. Í tilkynningu Brúneggja segir að tilraunir til að rétta hlut fyrirtæksisins í „óvæginni umfjöllun dagana á eftir“ hafi ekki borið árangur.
Í þættinum kom fram að Brúnegg hefði, að mati stofnunarinnar, blekkt neytendur árum saman með því að notast við merkingar sem héldu því fram að eggjaframleiðsla fyrirtækisins væri vistvæn og að varphænur þess væru frjálsar. Í krafti þess kostuðu eggin um 40 prósent meira en þau egg sem flögguðu ekki slíkri vottun. Kastljós fékk aðgang að gögnum um afskipti Matvælastofnunnar af Brúneggjum og í þeim kom í ljós að stofnunin hefur í tæpan áratug haft upplýsingar um að Brúnegg uppfyllti ekki skilyrði sem sett voru fyrir því að merkja vörur sem vistvænar. Það væri því að blekkja neytendur. Atvinnuvegaráðuneytið hafði líka þessar upplýsingar, en neytendum var ekki greint frá þeim.
Fyrir rúmu ári síðan hafi staðið til að taka yfir vörslu á hænum Brúneggja vegna ítrekaðra brota á lögum um meðferð dýra, meðal annars með því að vera með allt of marga fugla í eggjahúsum. Til að koma í veg fyrir vörslusviptinguna þurftu Brúnegg að slátra um 14 þúsund fuglum.
Brúnegg ehf. hefur hagnast um tugi milljóna á ári undanfarin ár. Til að mynda var hagnaður fyrirtækisins tæplega 42 milljónir króna 2015 og tæplega 30 milljónir árið 2014. Samtals var hagnaður fyrirtæksins á árunum 2009 til 2016 verið vel yfir tvö hundruð milljónir króna. Bræðurnir Kristinn Gylfi Jónsson og Björn Jónsson eiga fyrirtækið í gegnum einkahlutafélög sín, og þessi félög högnuðust samanlagt um tæplega hundrað milljónir króna 2015.
Allar stærstu verslunarkeðjur landsins, þar á meðal lágvöruverslanarisarnir Bónus og Krónan, tóku Brúnegg úr sölu hjá sér eftir Kastljós-þáttinn og hafa ekki tekið vöruna aftur inn.