Samskip ætla að kanna ásakanir hollensks stéttarfélags, sem sakar fyrirtækið um mismunun gagnvart vörubílstjórum í Hollandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samskipum.
„Við tökum þessa umfjöllun alvarlega og höfum þegar haft frumkvæði að því að rannsaka þær ásakanir sem beinast gegn undirverktaka okkar,“ er haft eftir Pálmari Óla Magnússyni, forstjóra Samskipa á Íslandi. Samskip segjast leggja áherslu á góðan aðbúnað starfsmanna og því komi umfjöllunin í Hollandi félaginu mjög á óvart. Umfjöllunin virðist hins vegar beinast að undirverktaka Samskipa.
Í hollenska fréttaskýringarþættinum EenVandaag í vikunni var greint frá því að hollenska stéttarfélagið FNV hefði lagt fram kæru gegn Samskipum til lögreglunnar í Hollandi, en Samskip er sakað um að mismuna vörubílstjorum eftir þjóðerni. Vörubílstjórar frá Austur-Evrópu sem starfa í Hollandi eru á launakjörum frá heimalöndum sínum. Þeim ásökunum hafnaði Samskip alfarið og sagði í yfirlýsingu þá að starfsemin í Hollandi sé í fullu samræmi við lög. Í ítarlegri tilkynningu félagsins vegna málsins sagði að engar upplýsingar liggi fyrir um hvort kæran hafi verið tekin til meðferðar eða í hvað henni felst nákvæmlega.
„Það er alveg klárt að Samskip skorast ekki undan ábyrgð og þegar við ráðum undirverktaka þá krefjumst við upplýsinga til staðfestingar á að farið sé eftir lögum og reglum. Ef menn brjóta lög þá eru þeir líka að brjóta samningana við okkur og þá er samningunum sagt upp,“ segir Pálmar Óli í tilkynningunni nú. „Það er skylda okkar að fara eftir lögum og reglum sem við gerum í hvívetna. Við leggjum enn fremur metnað okkar í jöfn tækifæri starfsmanna og góðan aðbúnað þeirra.“