Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, er kominn í veruleg vandræði eftir að upplýsingar komu fram um það að hann hefði í tvígang hitt sendiherra Rússa í Bandaríkjunum, Sergey I. Kislyak, á fundum í fyrra. Fyrst í júlí og síðan í september.
Eiðsvarinn, frammi fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings, hélt hann því fram að hann hefði ekki átt í samskiptum við Rússa. Hann hefur nú sjálfur staðfest að fundirnir hefðu átt sér stað, en segist ekki líta svo á að hann hafi logið að nefndinni. Hann hefði skilið spurninguna á þann veg, að hann hafi talið rétt að segjast ekki hafa hitt Rússana.
Sessions hefur ákveðið að draga sig alveg frá því ef til þess kemur að dómsmálaráðuneyti hans fari að rannsaka tengsl framboðs Donalds Trumps við Rússa. Nú þegar hefur Michael Flynn, sem gegndi stöðu aðalráðgjafa Trumps á sviði öryggis- og varnarmála, sagt af sér vegna tengsla sinna við Rússa. Hann greindi Micheal Pence, varaforseta Bandaríkjanna, ekki frá því að hann hefði rætt um viðskiptaþvinganir á hendur Rússum við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, Sergey I. Kislyak.
Tímalína atburðanna sem tengjast Sessions er þessi.
Hinn 28. febrúar í fyrra var Sessions fyrsti þingmaður Repúblikana til að lýsa formlega yfir stuðningi við framboð Donalds Trumps.
Hinn 3. mars greindi Trump frá því að Sessions yrði aðalráðgjafi hans í öryggis- og varnarmálum í framboðinu.
Orðrómur um að tölvuárásir hafi átt sér stað á Demókrataflokkinn og helstu stjórnendur framboðs Hillary Clinton er staðfestur með yfirlýsingu 14. júní frá Demókrötum.
Hinn 18. júlí hittir Sessions sendiherra Rússa, Sergey I. Kislyak, á fundi, eftir fund Repúblikana.
Fjórum dögum síðar, 22. júlí, eru tölvupóstar kosningastjóra Demókrata og Hillary Clinton, ásamt fleirum, birtir á vef Wikileaks.
Hinn 25. júlí lýsir bandaríska alríkislögreglan því yfir að rannsókn sé hafin á tölvuárásunum. Sama dag segir Donald Trump í beinni útsendingu, í ræðu. „Rússar, ef þið eruð að hlusta, ég vona að þið getið birt eitthvað af þessum 30 þúsund tölvupóstum sem Hillary eyddi”.
Hinn 8. september hitti Sessions sendiherrann aftur, að þessu sinni á skrifstofu sinni í Washington D.C. Mánuði síðar lýsir Barack Obama, Bandaríkjaforseti, því fyrir að Rússar séu að skipta sér af lýðræðislegum framgangi kosninga í Bandaríkjunum. Donald Trump er síðan kosinn Bandaríkjaforseti, 8. Nóvember.
Hinn 29. desember bregst Obama við tölvuárásum Rússa með refsiaðgerðum og vísar rússneskum erindrekum úr landi.
Á svipuðum tíma ræddi Michael Flynn við Kislyak í síma, og þar voru meðal annars viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum til umfjöllunar. Símtalið var hlerað.
Hinn 10. janúar á þessu ári var Sessions í þinginu í Bandaríkjunum, og svaraði spurningum eiðsvarinn. Hann sagðist aldrei hafa verið í samskiptum við Rússa.
Sessions er skipaður dómsmálaráðherra 8. febrúar.
Flynn segir af sér 13. febrúar.
Washington Post greinir frá því 1. mars að Sessions hefði átt fundina með sendiherra Rússa, þvert á það sem hann hafði áður haldið fram. Donald Trump lýsir strax yfir stuðningi við Sessions og segir um nornaveiðar að ræða. Hann hafi ekkert rangt gert.
Þingmenn Demókrata og einnig nokkrir úr röðum Repúblikana þrýsta á um að allt verði upplýst sem tengist samskiptunum við Rússa.