Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að sér finnist það koma til greina að setja gólf á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða. Það myndi þýða að lífeyrissjóðir landsins, sem áttu 3.509 milljarða króna í hreinni eign um síðustu áramót, yrðu skikkaðir með lögum til að fjárfesta ákveðin hluta af eignum sínum utan íslensks hagkerfis. Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir forsætisráðherra einnig að vegna samþjöppunar á valdi sem geti fylgt fjárfestingum lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu finnist honum að taka þurfi til skoðunar hvort þeir eigi að geta farið með atkvæðisrétt sem fylgja stórum eignarhlutum „eða hvort setja beri þak á slíkan atkvæðisrétt.“ Það myndi þá þýða að lífeyrissjóðir myndu ekki fá atkvæðisrétt í samræmi eign sína í skráðum íslenskum félögum en aðrir minni fjárfestar fá atkvæðisrétt umfram eign sína. Bjarni segir þó að engar ákvarðanir verði teknar fyrr en að lokinni úttekt á málunum sem hann ætli að hrinda í framkvæmd fljótlega.
Hefur áhyggjur af fyrirferð lífeyrissjóða
Bjarni segir í viðtalinu að hann hafi miklar áhyggjur af því að lífeyrissjóðir séu orðnir jafn fyrirferðarmiklir í íslensku atvinnulífi og þeir eru í dag. Sjóðirnir eiga beint eða óbeint yfir 50 prósent skráðra hlutabréfa og eru mjög fyrirferðamiklir í óskráðum félögum og ýmiss konar sjóðum. Þeir séu í raun og veru leiðandi og berandi fjárfestar víðast þar sem eitthvað sé að gerast nýtt í íslensku atvinnulífi í dag.
„Þegar við þetta bætist að lífeyrissjóðirnir eru að skoða fjárfestingar inni í fjármálafyrirtækjum þá hlýtur maður að staldra við og spyrja hvort þetta sé gott fyrir lífeyrissjóðina sjálfa sem fjárfesta og fyrir heilbrigt efnahags- og atvinnulíf. Þetta þéttriðna net lífeyrissjóða á Íslandi felur sömuleiðis í sér hættu, ekki síst vegna þess að atvinnulífið á Íslandi er jafn fábreytt og raun ber vitni. Við erum ekki með nema tvö til fjögur berandi fyrirtæki á hverju stóra sviðinu, sama hvort þú horfir á tryggingar, fjármál, olíufélög, smásöluverslun, fjölmiðlun, fjarskipti og þess vegna samgöngur. Þetta getur verið nokkuð eitruð blanda.“
Forsætisráðherra ætlar að hrinda af stað úttekt á þeim hættum sem gætu leynst í kerfinu við þær aðstæður sem eru í dag til framtíðar. „Ég held að það sé mjög mikilvægt, bæði lífeyrissjóðanna sjálfra vegna og fyrir heilbrigða og góða uppbyggingu atvinnulífsins til lengri tíma. Þessa vinnu mun ég setja af stað áður en langt um líður. Hvort komi til lagabreytinga í kjölfar þeirrar vinnu ætla ég ekki að segja neitt til um nú, áður en vinnan er hafin. Það sem þarf m.a. að skoða er greiðsluflæði lífeyrissjóðanna inn í framtíðina með hliðsjón af aldurssamsetningu þjóðarinnar og við þurfum að velta fyrir okkur þáttum sem varða efnahagslífið í heild, eins og því að hvaða marki er æskilegt að auka erlendar fjárfestingar sjóðanna.“
Gólf kemur til greina
Bjarna finnst koma til greina að setja gólf á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna. „Vegna samþjöppunar á valdi, sem getur fylgt fjárfestingum lífeyrissjóðanna inn í atvinnulífið, finnst mér þurfa að taka til skoðunar þætti eins og þann hvort þeir eigi að geta farið með atkvæðisrétt, sem fylgir stórum eignarhlutum, eða hvort setja beri þak á slíkan atkvæðisrétt. Ég vonast til þess að við getum tekið yfirvegaðar ákvarðanir um framhaldið, að svona úttekt lokinni.“