Vinstri græn reyndu að fá Framsóknarflokkinn inn í viðræður um myndun fimm flokka stjórnar þegar ljóst var að ekki næðist saman við Viðreisn. Það hafi hins vegar ekki gengið vegna þess að „bandalag Bjartrar framtíðar og Viðreisnar varð ekki sundur slitið.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á flokksráðsfundi flokksins sem fram fór í Hlégarði í Mosfellsbæ í morgun. Mbl.is greinir frá.
Þar sagði Katrín að í stjórnarmyndunarviðræðum um myndun fimm flokka stjórnar, sem hún leiddi, hafi mest borið á milli Vinstri grænna og Viðreisnar. Þegar Viðreisn hafi ekki haft sannfæringu fyrir því að halda viðræðunum áfram hafi verið reynt að fá Framsóknarflokkinn inn í viðræðurnar. Það hafi ekki reynst mögulegt vegna ófrávíkjanlegs bandalags Bjartrar framtíðar og Viðreisnar.
Ýmsar aðrar tilraunir voru gerðar um myndun ríkisstjórnar. Meðal annars ræddu Vinstri græn við Sjálfstæðisflokk en of langt var á milli hugmynda þeirra varðandi tekjur og gjöld og önnur tilraun við fimm flokka stjórn, undir forystu Pírata, rann einnig út í sandinn. Katrín segir að sú niðurstaða sem á endanum varð ofan á, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar “hafi legið í loftinu allan tímann.“
Á fundinum sagði Katrín að Vinstri græn hafi ekki viljaði fara í ríkisstjórn nema að vera viss um að ná fram árangri í að byggja upp innviði samfélagsins: Heilbrigðiskerfið, menntakerfið, kjör aldraðra og öryrkja, samgöngur og fjarskipti.