Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur birt drög að frumvarpi til laga sem hafa það markmið að endurskoða samkeppnisstöðu mjólkuriðnaðarins. Eftirlit með markaðsráðandi afurðastöð í mjólkuriðnaði, MS, verður í höndum Samkeppniseftirlitsins, samkvæmt frumvarpsdrögunum.
Samkvæmt drögunum eiga allir aðilar í mjólkuriðnaði að geta keypt mjólk með sama tilkostnaði og markaðsráðandi afurðastöð. Slíkri afurðastöð verður einnig skylt að safna og taka við allri hrámjólk sem henni býðst frá framleiðendum mjólkur og verður skylt að selja óháðum afurðastöðvum og vinnsluaðilum hrámjólk sem nemur allt að 20% af þeirri hrámjólk sem hún tekur við.
Þá þarf markaðsráðandi afurðastöð að aðskilja fjárhag og stjórnun framleiðslunnar frá annarri starfsemi. Jafnframt mun eftirlit með markaðsráðandi afurðastöð vera á forræði Samkeppniseftirlitsins, og verð á hrámjólk verður áfram ákveðið af verðlagsnefnd. Jafnræði skal gilda um önnur viðskiptakjör og skilmála.
Afurðastöðvum í mjólkuriðnaði verður óheimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða, og verður óheimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga í framleiðslu og annars konar samstarf við framleiðslu, geymslu og dreifingu á mjólkurafurðum.
Frumvarpið var samið með tilliti til tillagna frá Samkeppniseftirlitinu, og einnig var tekið mið af því hvernig skipulagi er háttað í Noregi og Hollandi, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins segir m.a. um landbúnað að endurskoða þurfi ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar. Ráðuneytið segir að unnið sé að því í ráðuneytinu að forma tillögur um hvernig best verði staðið að ráðstöfun innflutningskvóta með hliðsjón af hagsmunum neytenda. Þær tillögur verði kynntar sérstaklega þegar þær liggja fyrir.