Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að hann vilji ákvæði um landsdóm burt úr stjórnarskrá landsins. Dómurinn eigi ekkert erindi þangað. Þetta kemur fram í viðtali sem birt er í tímariti Lögréttu og kemur út í dag. Morgunblaðið greinir frá.
Þar er haft eftir Guðna: „Ég sagði það áður en ég tók við embætti forseta Íslands og segi það enn að í endurreisnarstarfinu eftir hrun var feigðarflan að nýta forn og úrelt ákvæði um landsdóm.“ Forsetinn segir að það hafi sýnt sig að niðurstaða dómsins hafi fremur sundrað en sameinað og það á versta tíma. Niðurstaða landsdóms, þegar hann var kallaður saman, hafi ekki verið í samræmi við þá stefnu að þeir sem bæru pólitíska ábyrgð myndu axla hana og taka afleiðingunum. „Látum þetta okkur að kenningu verða enda hygg ég að enginn vilji hafa ákvæði um landsdóm í stjórnarskránni. Finnið þann sem vill að málum verði hagað með sama hætti í framtíðinni. Ég efast um að ykkur takist það.“
Í viðtalinu segir Guðni einnig að þjóðin telji ekki skynsamlegt að forsetinn hafi einn vald til að synja lögum. Fólki í landinu vilji ákvæði í stjórnarskrá um að ákveðin fjöldi undirskrifta geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.
Rammpólitísk ákvörðun um að ákæra bara Geir
Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni, sem komu út í apríl 2010, að nokkrir íslenskir ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í starfi í aðdraganda hrunsins. Þingmannanefnd sem skipuð var til að fjalla um skýrsluna komst að þeirri niðurstöðu í september 2010 að ákæra ætti fjóra fyrrverandi ráðherra, þau Geir H. Haarde, Árna Mathiesen, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvin G. Sigurðsson, fyrir landsdómi vegna þessarar vanrækslu. Þegar alþingismenn kusu um málið varð niðurstaðan hins vegar sú að einungis Geir var kærður.
Málið var rammpólitískt og allt varð hreinlega vitlaust þegar nokkrir þingmenn Samfylkingar ákváðu að segja já við ákæru á hendur ráðherrum Sjálfstæðisflokksins en hlífa sínum flokksmönnum. Landsdómsmálinu lauk með því að Geir var fundinn sekur um einn ákærulið en þeir voru upphaflega sex. Honum var ekki gerð refsing. Geir kærði málsmeðferðina til Mannréttindadómstóls Evrópu.