Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra harðlega við upphaf þingfundar í dag.
Ástæðan eru ummæli fjármálaráðherra í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun, þar sem hann ræddi um samgönguáætlun, og sagði meðal annars að honum þætti það „nánast siðlaust“ af síðasta Alþingi skapa rangar væntingar fólks með því að samþykkja ófjármagnaða samgönguáætlun. „Í raun og veru var skandallinn sá að menn skyldu samþykkja samgönguáætlun án þess að samþykkja á sama tíma að tryggja fjármögnun. Það er uppruni vandans,“ sagði Benedikt meðal annars. Hann sagði einnig „svo kemur þetta stjórnlausa þing, þegar það var ekki starfandi ríkisstjórn með meirihluta, og þá ákveða menn að bæta í og setja á milli fjögurra og fimm milljarða króna og þar verða aftur mistök.“
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, vakti fyrstur máls á orðum ráðherrans undir liðnum störf þingsins og sagðist ekki geta orða bundist vegna málsins. „Ég hef á þeim árum sem ég hef fylgst með Alþingi aldrei orðið vitni að slíkum dónaskap gagnvart þinginu,“ sagði Kolbeinn. Hann spurði hvað forseti þingsins ætlaði að gera í því að ráðherrann sýndi þinginu „þessa fádæmalausu óvirðingu.“
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, tók undir með Kolbeini. Hún bað Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis um að ræða þetta orðfæri við ráðherrann og sagði grafalvarlegt að svona væri talað um verk sem þinginu hafi borið að vinna samkvæmt lögum. Hún gerði einnig athugasemdir við það að Benedikt hafi sagt að þingið hefði verið stjórnlaust eftir kosningar, það væri alvarlegt orðfæri að tala um að Alþingi sé stjórnlaust þegar það sé réttkjörið undir stjórn forseta sem það valdi sér og að afgreiða mál sem því beri að gera.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, tók einnig undir með Kolbeini og Svandísi, og sagði þingið viðstöðulaust upplifa vanvirðu frá framkvæmdavaldinu, þannig hefði það einnig verið á síðasta kjörtímabili. „Núna er það orðið þannig að það er ekki lengur hægt að sitja undir þessu ofríki framkvæmdavaldsins. Mér finnst mjög brýnt að forseti beiti sér fyrir því að ráðherranum verði gert ljóst hvernig þrískipting valdsins fari fram.“
„Þetta er í annað skiptið sem að ráðherrar í þessari ríkisstjórn virðast ekki átta sig á því hver það er sem hefur völdin hér í samfélaginu þegar kemur að þessum hlutum,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Hann sagði að honum þætti fjármálaráðherra verða að koma fyrir þingið og gera grein fyrir orðum sínum. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði ráðherra vinna í umboði þingsins. „Getur það verið að nýir ráðherrar átti sig ekki á hlutverki sínu? Það er mjög alvarlegt.“ Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, var svo sjötti stjórnarandstöðuþingmaðurinn sem ræddi viðtalið við ráðherrann, og sagði að þótt ráðherrann hefði litla þingreynslu hlyti hann, jafn reynslumikill og hann væri í öðrum störfum, að geta borið smá virðingu fyrir þinginu.