Leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, hefur til taks tæknibúnað sem gerir henni mögulegt að fylgjast með fólki, hlera það nálgast upplýsingar þess, í gegnum öll helstu stýrikerfi snjallsíma og heimilistölva. Þá getur stofnunin hlerað fólk í gegnum snjallsjónvörp sem búa yfir raddstýringarkerfi.
Þetta kemur fram í gögnum sem Wikileaks hefur birt, og vitnað er til í umfjöllun allra helstu fjölmiðla heimsins, þar á meðal breska ríkisútvarpsins BBC.
Á meðal kerfa sem CIA getur hakkað í gegnum, svo til alveg án fyrirvara, eru Windows, Android, iOS frá Apple, OSX and Linux.
Samkvæmt gögnunum hefur CIA náð að þróa leið til að hlera samtöl sem eiga sér stað nærri Samsung snjallsjónvörpum. M15 leyniþjónusta Breta er sögð hafa aðstoðað við að koma þeim búnaði upp.
Talsmaður CIA hefur ekki viljað staðfesta það sem fram kemur í gögnunum og yfirvöld hafa ekkert tjáð sig um það.
Búnaðurinn er sagður byggja á margvíslegum tæknitólum sem Rússar hafa meðal annars þróað.