Danska ráðgjafafyrirtæki Copenhagen Economics, telur að færa megi fyrir því fjölmörg rök að sæstrengur, til dæmis til Bretlands, gæti verið ákjósanlegur fjárfestingarkostur fyrir Ísland, bæði til að tryggja orkuöryggi og til verðmætasköpunar. Þá telur fyrirtækið að þjóðhagslegur ávinningur þess að færa meðalverð á orku, sem hafi verið allt of lágt, að alþjóðlegum viðmiðum gæti numið um 13,6 til 59,2 milljörðum króna á ári. Það myndi þá þýða að orkuverð til heimila og fyrirtækja myndi líka hækka. Þetta kemur fram í skýrslu sem það hefur unnið að beiðni Landsvirkjunar og var kynnt á morgunverðarfundi fyrirtækisins í morgun.
Þar segir enn fremur að sæstrengur sé langtímavalkostur því ákvarðanir um málið eigi sér langan aðdraganda og þá sé lagning slíks strengs tímafrek. „Á meðan er mikilvægt að mögulegar breytingar og umbætur á stefnu taki mið af streng sem langtímakosti, þ.e.a.s. að landið verði ekki fest í umgjörð sem reynist óhagkvæm ef til þess kemur að strengurinn verði lagður.“ Gæta þurfi að því að ákvarðanir sem teknar séu í dag hindri ekki möguleikann á lagningu sæstrengs síðar.
Tvær megináskoranir
Í skýrslu Copenhagen Economics kemur fram að íslenskur orkumarkaður standi frammi fyrir tveimur megináskorunum. Annars vegar þurfi hann að tryggja orku fyrir heimili og fyrirtæki og hins vegar hvernig auka megi arðsemi á sölu orku til stórnotenda.
Í skýrslunni segir að hækkandi orkuverð á markaði til stórnotenda og aukin eftirspurn eftir orku leið itil þess að almenni markaðurinn sé kominn í aukna samkeppni við sölu til stórnotenda. Framleiðendur kunni að sjá meiri hag í því að selja til stórnotenda ef verðið þar hækkar áfram. Skýrsluhöfundar telja að þessi staða gæti leitt til vandamála þar sem gengið hefur á umframorku sem innbyggð hefur verið í raforkukerfið. Þá var fellt niður ákvæði um að Landsvirkjun bæri að tryggja raforku og afhendingu hennar þegar raforkulögum var breytt árið 2003 til samræmis við Evróputilskipanir. Þegar hafi nokkur íslensk orkufyrirtæki gefið því undir fótinn að draga úr þjónustu við heimili og fyrirtæki til að auka sölu til orkufreks iðnaðar. Í samantekt sem fygldi skýrslunni segir: Mögulegar skerðingar séu áhyggjuefni fyrir heimili og smærri fyrirtæki sem gætu þurft að horfa til kostnaðarsamra og mengandi varaleiða á borð við framleiðslu rafmagns með dísilrafstöðvum.
Telja að úrbætur þurfi á fimm sviðum
Skýrsluhöfundar telja að tekjur íslenskra orkufyrirtækja af sölu til stórnotenda hafi sögulega verið of lágar og „umtalsvert undir alþjóðlegum viðmiðum, jafnvel þótt litlum tekjum afi verið safnað saman með nýtingarsköttum.“ Þeir telja enn fremur að auknar tekjur með hærra raforkuverði verði íslensku samfélagi til mikilla hagsbóta, jafnvel þótt það fæli í sér hærra verð til heimila. Þjóðhagslegur ávinningur gæti numið um 13,6 til 59,2 milljörðum króna á ári hverju ef meðalverð yrði fært að alþjóðlegum viðmiðum.
Samtals segir í skýrslunni að úrbætur þurfi að eiga sér stað á fimm sviðum:
- Tryggja þarf orku til heimila og smárra og meðalstórra fyrirtækja.
- Finna þarf leiðir til að tryggja Íslandi sanngjarnt afgjald fyrir orkuframleiðslu.
- Samþætta þarf markmið í orku- og umhverfismálum.
- Hugleiða mætti valkosti um breytingu á skipulagi orkumarkaðar, sérstaklega vegna orkusölu til heimila.
- Ekki á að slá hugmyndir um lagningu sæstrengs út af borðinu.