Aldrei hafa fleiri erlendir ríkisborgarar verið á vinnumarkaði hér á landi en nú. Erlendir ríkisborgarar skipa nú 10,3 prósent af vinnumarkaðnum, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag, og er vöxturinn í efnahagslífinu drifinn áfram af starfsfólki erlendis frá.
Tvö þúsund fleiri erlendir starfsmenn eru á landinu en voru þegar síðasta hápunkti var náð árið 2008. Samkvæmt tölum sem Vinnumálastofnun tók saman voru 20.273 erlendir starfsmenn hér á landi í lok árs 2016.
Í síðustu efnahagsuppsveiflu
náði fjöldi erlendra starfsmanna
hámarki árið 2008 þegar
þeir voru 18.357 talsins. „Við erum með sveiflukennt hagkerfi
sem er fyrst og fremst ástæðan
fyrir því að við fáum svona mikinn
innflutning á erlendu vinnuafli með
reglulegu millibili. Það væri heppilegra
fyrir okkur ef þetta væri jafnari
uppbygging í byggingariðnaði,“ segir
Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá
Vinnumálastofnun, í viðtali við Fréttablaðið.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að atvinnuástandið verði vart mikið betra en það er núna. „Eftirspurnin er fyrst og fremst í þessum greinum sem hafa verið í miklum vexti, ferðaþjónustu og byggingariðnaði og svo framvegis, en staðan er nú sú að það vantar að skapa störf fyrir sérfræðinga og háskólamenntað fólk, sem er auðvitað að fjölga á vinnumarkaðnum líka, svo að það má segja að þar séu sóknarfæri,“ segir Gissur.