Hlutfall kvenna á þingi er hærra á Íslandi en í öllum öðrum ríkjum sem tilheyra EES-svæðinu og umsóknarríkjum ESB. Þetta sýna tölur frá Evrópusambandinu.
Konur eru 48 prósent þingmanna hér á landi, en 30 konur voru kjörnar á þing í kosningunum í október síðastliðnum, sem eru fleiri konur en nokkru sinni fyrr.
Meðalhlutfall kvenna á þingi hjá Evrópusambandsríkjunum 28 er 28 prósent, og 72 prósent karlar. Hæst er hlutfallið innan ESB í Svíþjóð, 46 prósent, en þar á eftir koma Finnland og Belgía með 42 prósent.
Þegar litið er til umsóknarríkja að Evrópusambandinu, er hlutfallið hæst í Makedóníu, 35 prósent, og það er 34 prósent í Serbíu. Í Svartfjallalandi er hlutfall kvenna 23 prósent en í Tyrklandi 15 prósent.
Hjá hinum EES-ríkjunum tveimur, Noregi og Liechtenstein, er hlutfallið ólíkt. 40 prósent norskra þingmanna eru konur en 20 prósent í Liechtenstein.
Á botninum í kynjajafnrétti á þingi er Ungverjaland, þar sem aðeins einn af hverjum tíu þingmönnum eru konur. Þar á eftir er Rúmenía, þar sem hlutfall kvenna á þingi er tólf prósent. Konur eru svo þrettán prósent þingmanna á Möltu, 16 prósent í Lettlandi, 18 prósent í Grikklandi og 19 prósent í Króatíu og Búlgaríu.
Mikið var rætt um hlutskipti kvenna í íslenskum stjórnmálum fyrir síðustu kosningar, ekki síst í Sjálfstæðisflokknum. Þar þóttu konur bera skarðan hlut frá borði í nokkrum prófkjörum, sem varð til þess að í Suðvesturkjördæmi, kjördæmi formannsins og forsætisráðherrans Bjarna Benediktssonar, var uppröðun á lista breytt. Bryndís Haraldsdóttir var færð upp í annað sætið og var eina konan úr því kjördæmi sem náði kjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ef kynjahlutföllin hjá flokknum hefðu verið jöfn hefði Alþingi verið skipað fleiri konum en körlum í fyrsta sinn.