Landsframleiðsla jókst um 7,2 prósent í fyrra á Íslandi að raungildi. Það er mesti hagvöxtur sem landið hefur upplifað á einu ári frá árinu 2007, þegar fyrirhruns góðærið náði hámarki. Þá var hagvöxtur 9,4 prósent og byggði fyrst og síðast á vexti tengdum fjármálafyrirtækjum, sem síðar féllu haustið 2008.
Hagstofan birti í morgun tölur um hagvöxt síðasta árs. Vöxtur hefur verið hérlendis á hverju árinu 2011 en sá sem átti sér stað í fyrra sker sig verulega úr að umfangi. Á tímabilinu 2011 og út árið 2015 var hagvöxtur frá 1,2 til 4,4 prósent. Á árinu 2016 var hann, líkt og fyrr sagði, 7,2 prósent. Það er líka þriðji mesti hagvöxtur sem mælst hefur á einu ári á síðustu tæpu þremur áratugum. Einu árin þar sem hagvöxtur var meiri á því tímabili voru 2004 (8,1 prósent) og 2007 (9,4 prósent).
Í frétt Hagstofunnar segir að landsframleiðsla sé nú tíu prósent meiri að raungildi en hún var árið 2008. Einkaneysla jókst um 6,9 prósent, samneysla um 1,5 prósent og fjárfesting jókst um 22,7 prósent. Árlegur vöxtur einkaneyslu hefur ekki mælst meiri frá árinu 2005 en að árinu 2007 undanskildu hefur einkaneysla ekki mælst meiri að raungildi hér á landi.
Þjónusta stærra hlutfall af landsframleiðslu í fyrsta sinn
Útflutningur jókst um 11,1 prósent á árinu 2016 en innflutningur um 14,7 prósent. Því dró utanríkisverslun úr hagvexti. Þrátt fyrir það var afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum 158,8 milljarðar króna á árinu 2016. Útflutningur á þjónustu var 26,8 prósent af landsframleiðslu og er það í fyrsta sinn i frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst árið 1945 sem tekjur af útfluttri þjónustu mælast hærri en af vöruútflutningi. Ástæðan er einföld: gríðarlegur vöxtur í ferðaþjónustu, sem er nú stærsta stoðin undir íslenskum efnahag.
Fjárfesting jókst um 22,7 prósent á síðasta ári en árlegur vöxtur fjárfestingar hefur ekki mælst meiri síðan árið 2006. Umtalsverð aukning var í fjárfestingu atvinnuveganna, eða 24,7 prósent og sömuleiðis í íbúðafjárfestingu, eða 33,7 prósent. Á sama tímabili jókst fjárfesting hins opinbera um 2,5 prósent.