Um 58 prósent Íslendinga eru á móti vegatollum, sem notaðir yrðu til uppbyggingar á vegakerfinu á Íslandi, á meðan 42 prósent eru fylgjandi slíkum tollum. Þetta kemur fram í nýrri könnun frá Maskínu.
Mikill munur er á afstöðu fólks eftir því hvar það býr. Þannig er mest andstaða við vegatolla á Suðurlandi og Reykjanesi, þar sem 73 prósent eru á móti, en minnst andstaða hjá íbúum Reykjavíkurborgar, þar sem sléttur helmingur er á móti vegatollum. Í Reykjavík er einnig mestur stuðningur við vegatolla, þegar val er um að fara aðra leið, en 34,4 prósent Reykvíkinga sögðust hlynntir slíkri lausn.
51,9 prósent íbúa á Austurlandi eru á móti vegatollum, en á Austurlandi er einnig hæst hlutfall þeirra sem vilja vegatolla hvort sem hægt er að fara aðra leið til að forðast tolla eða ekki.
Af þeim sem eru hlynntir vegatollum sögðust 29-30 prósent þeirra vera hlynntir vegatollum til uppbyggingar í vegakerfinu aðeins þar sem maður hefur val um aðra leið, en 12-13 prósent eru hlynntir vegatollum óháð því hvort val er um aðra leið eða ekki.
Marktækur munur er á milli kynjanna, en karlar eru frekar á móti vegatollum en konur, tæplega 60 prósent karla eru á móti en tæplega 56 prósent kvenna. Þá er líka marktækur munur eftir menntun, en fólk með grunnskólapróf var mun líklegra til að vera á móti upptöku vegatolla en fólk með aðra menntun. 72,6 prósent grunnskólamenntaðra sögðust vera á móti upptöku vegatolla, en 56,6 prósent þeirra sem hafa framhaldsskólapróf eða iðnmenntun, og 54,7 prósent þeirra sem hafa háskólagráðu.
Kjósendur Bjartrar framtíðar eru hlynntastir upptöku vegatolla, en 50,8 prósent þeirra segjast hlynntir vegatollum þar sem val er um aðra leið, og tæp 17 prósent óháð því. 32,3 prósent eru á móti upptöku vegatolla.
Mest andstaða við upptöku vegatolla er hjá kjósendum Pírata, en 71 prósent þeirra sögðust vera á móti slíkum tollum. Meirihluti kjósenda annarra flokka eru á móti vegatollum, 52,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins og 55 prósent kjósenda Vinstri grænna.