Verið er að undirbúa tillögur um aðgerðir til viðnáms í gjaldeyrismálum og þær verða tilbúnar í þessum mánuði. Þetta sagði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður og þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Benedikt um gjaldeyrismál og haftamál í fyrirspurn sinni. Hann spurði hvenær vænta mætti afnáms hafta á almenning og fyrirtæki, en slíkt afnám gæti hjálpað til við að sporna gegn sífelldri styrkingu krónunnar. Benedikt sagði að það gæti gerst á næstu vikum eða á næstu mánuðum. Hann hefði ítrekað lýst því yfir að hann vildi að algjört afnám hafta yrði sem allra fyrst. Hann sagðist sammála Sigurði Inga með að það gæti verið mikilvægur áfangi í því að ná jafnvægi í gjaldeyrismálum. Flöktið sem búið sé að vera á krónunni sé bæði óviðunandi fyrir innlent atvinnulíf og fyrir útflutningsgreinar.
Sigurður Ingi spurði einnig um fund íslenskra ráðamanna með fulltrúum vogunarsjóða sem ekki tóku þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í fyrra. Þessir sjóðir eiga yfir hundrað milljarða í aflandskrónum. Greint var frá því fyrir skömmu að fulltrúar stjórnvalda hefðu fundað með þeim í New York nýverið. Sigurður Ingi spurði Benedikt að því hvort þessi fundur væri að trufla aðgerðir stjórnvalda.
Því svaraði Benedikt ekki, en hann upplýsti í svörum sínum að það hefðu verið fulltrúar vogunarsjóðanna sem óskuðu eftir fundi með stjórnvöldum. Þar hefði ekki verið gengið frá neinum samningum en fulltrúar þessara vogunarsjóða hefðu útskýrt sitt mál.