„Brexit hefur losað mikla krafta úr læðingi og það er okkar hlutverk að fanga þá krafta og vera áfram í fararbroddi þegar kemur að fríverslun,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á þingi í gær, í sérstakri umræðu um fríverslunarsamninga.
„Bretar vilja losna við þær viðjar sem sameiginleg viðskiptastefna ESB skapar og vill breska ríkisstjórnin skapa sér sveigjanleika til að geta sinnt alþjóðlegri hagsmunagæslu á eigin forsendum. Verkefni íslenskra stjórnvalda er augljóst. Það er að tryggja a.m.k. óbreyttan aðgang að breska markaðnum í kjölfar útgöngu Breta, og helst betri, og jafnframt að tryggja réttindi íslenskra ríkisborgara sem búsettir eru eða starfa í Bretlandi,“ sagði utanríkisráðherra.
Hann sagði einnig að Ísland stæði vel að vígi þegar kemur að fríverslunarmálum, og sé í öfundsverðri stöðu. „Við erum með okkar eigin viðskiptastefnu og erum ekki rígbundin öðrum ríkjum þegar kemur að markaðssókn fyrir íslenska hagsmuni. Aðild okkar að EFTA hefur verið og mun áfram vera hryggjarstykkið í fríverslunarmálum okkar, enda hafa EFTA-ríkin sótt fram af miklum krafti á síðustu árum og víkkað og dýpkað fríverslunarnet sitt verulega með samningi við alls 38 ríki.“
Mikil aukning í viðskiptum við Kína
Vöruviðskipti milli Íslands og Kína hafa aukist um 20 prósent eftir að fríverslunarsamningur var gerður milli ríkjanna tveggja. Heildarvöruviðskiptin námu tæpum 62 milljörðum króna í fyrra, miðað við 51 milljarð árið 2014, sagði Guðlaugur Þór. „Það er mikilsvert að meta að þetta sneri ekki bara að útflutningi heldur hefur þetta líka skilað sér til neytenda í lægra vöruverði á fatnaði, skóm, raftækjum og annars konar varningi sem framleiddur er í Kína og fluttur hingað til lands. Netverslun við Kína hefur sömuleiðis aukist gífurlega,“ sagði Guðlaugur Þór.
Utanríkisráðherra sagði einnig að á örfáum árum hafi fríverslun í heiminum gerbreyst, og það gefi augaleið að ef útflutningsdrifið hagkerfi eins og það íslenska á að dafna í harðri samkeppni verðum við að vera einu skrefi á undan öðrum. „Staðan er einföld: Við eigum allt undir frjálsum og hindrunarlausum viðskiptum. Við getum ekki leyft okkur að slaka á kröfum. Stjórnvöld hvers tíma verða ávallt að vera á tánum, í stöðugu samráði við útflutningsgreinarnar, vera framsýn og virkja þau úrræði sem okkur standa til boða. Þetta á að sjálfsögðu við um íslenska neytendur sem verða varir við hindrunarleysi í fríverslun með afnámi tolla, auknu vöruúrvali, lægra vöruverði. Velmegun okkar byggist á aðgengi að erlendum mörkuðum.“
Þá talaði Guðlaugur Þór um niðurfellingu tolla og sagði að frá upphafi þessa árs hafi tollfrelsi verið komið á 7.700 tollnúmerum af þeim 8.601 tollnúmerum sem til eru í íslenskri tollaskrá, „sem þýðir í raun að 90% tollfrelsi ríki í landinu.“ Þar til viðbótar sé tollfrelsi á vissum hefðbundnum landbúnaðarvörum, og varla hægt að tala um tollmúra í samhengi við viðskiptastefnu Íslands. „Það sem eftir stendur eru einstakar tegundir af því sem við köllum hefðbundnar landbúnaðarvörur.“