Ríkisútvarpið (RÚV) hagnaðist um 1.630 milljónir króna fyrir skatta á árinu 2016. Eftir að skattar voru greiddir nam hagnaðurinn 1.429 milljónum króna. Uppistaða hans, 1.535 milljónir króna, er vegna sölu á byggingarétti og þar af leiðandi einskiptishagnaður sem fellur ekki aftur til. En utan hans var hagnaður af reglulegri starfsemi RÚV upp á 95 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV.
Í ársreikningi fyrirtækisins kemur fram að það hafi fengið 3,8 milljarða króna í þjónustutekjur frá ríkissjóði. Um er að ræða það gjald sem hver og einn fullorðinn Íslendingur er skyldugur að greiða til reksturs RÚV.
Til viðbótar er RÚV með umtalsverðar tekjur af sölu auglýsinga og kostanna, en í ársreikningi eru þær tekjur sagðar tekjur vegna samkeppnisrekstrar. Alls námu þær tekjur 2,2 milljörðum króna á síðasta ári og þegar búið var að draga frá 440 milljóna króna kostnað sem lagður var út til að sækja þær tekjur, meðal annars með rekstri auglýsingasöludeildar, var hagnaður RÚV af samkeppnisrekstri 1,8 milljarðar króna.
Stöðugildi voru að meðaltali 258 á árinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 259 árið 2015, 297 árið 2013 og 324 árið 2008.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri er ánægður með rekstrarniðurstöðuna. „Þennan árangur þökkum við samtakamætti frábærs starfsfólks RÚV. Hann hefur náðst þrátt fyrir krefjandi rekstraraðstæður og ítrekaða lækkun á útvarpsgjaldi á undanförnum árum. Sala á byggingarrétti skilar RÚV umtalsverðum söluhagnaði sem leiðir til mikillar skuldalækkunar og mikilla bóta á eigin fé félagsins. Nýr þjónustusamningur sem undirritaður var á síðasta ári tryggir loks fyrirsjáanleika og öryggi í tekjum félagsins til næstu ára. Á hinn bóginn er félagið enn of skuldsett vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga frá gamalli tíð og er það mikill baggi á starfseminni í dag en á þeirri yfirskuldsetningu þarf að taka. Staða RÚV er sterk, hvort heldur litið er til rekstrarlegs árangurs eða notkunar og viðhorfs almennings. Þjónustuhlutverk RÚV við allt samfélagið til framtíðar er hlutverk sem við sem við nálgumst af metnaði og auðmýkt á degi hverjum. Það eru spennandi tímar framundan.“