Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti í morgun frumvarp um bílastæðagjöld fyrir ríkisstjórninni. Með frumvarpinu á að gefa ráðherra og sveitarfélögum auknar heimildir til þess að innheimta bílastæðagjöld í dreifbýli.
Sveitarfélög munu þannig geta lagt á bílastæðagjöld á vinsælum ferðamannastöðum og munu fá óskertar tekjur af þeim, en þeim yrði skylt að verja tekjunum í uppbyggingu á þjónustu sem tengist viðkomandi stað, samkvæmt því sem Jón hefur sagt. Með þessum hætti gætu sveitarfélög innheimt talsverðar tekjur. Samkvæmt núgildandi lögum er aðeins hægt að innheimta bílastæðagjöld í þéttbýli.
Lagabreytingin er talin nauðsynleg til að sveitarfélögunum verði heimiluð gjaldtaka á bílastæðum utan þéttbýlis en í dag er þeim aðeins heimilt að innheimta gjöldin í kaupstöðum og kauptúnum. Breytingin mun einnig ná til þess að heimila ráðherra gjaldtöku á landsvæðum í eigu ríkisins.
„Vegna aukins fjölda ferðamanna er talið brýnt að koma upp bílastæðum við vinsæla ferðamannastaði og veita þar ákveðna þjónustu svo sem bílastæðavörslu og salernisaðstöðu. Þannig er í breytingunni lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að setja reglur um gjaldtöku í þessu skyni og ráðherra verði heimilað að ákveða slíkt gjald með reglugerð á svæðum í eigu ríkisins,“ segir í kynningu á málinu á vef ráðuneytisins.
Gert er ráð fyrir því að lögin taki gildi um leið og þau eru samþykkt í þinginu, og því gæti gjaldtaka hafist í sumar ef frumvarpið nær fram að ganga.