Boðað hefur verið til ríkisstjórnarfundar í hádeginu í dag með skömmum fyrirvara. Samkvæmt heimildum Kjarnans er efni hans tillögur um aðgerðir í átt að fullu afnámi fjármagnshafta.
Blaðamannafundur verður haldinn síðdegis þar sem málið verður kynnt almenningi og fjölmiðlum. Fundurinn fer fram í ráðherrabústaðnum klukkan tvö og boðuðu bæði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra til fundarins. Ljóst er að klára þarf þau skref sem þarf að stíga í aðgerðunum í dag til að hægt verði að koma þeim í gagnið áður en markaðir opna í fyrramálið, til að alls jafnræðis sé gætt.
Fjármagnshöft hafa í gildi hérlendis frá því í nóvember 2008. Þau voru sett í kjölfar bankahrunsins þegar gengi krónunnar féll skarpt og nauðsynlegt varð að hindra útflæði fjármagns úr íslensku efnahagskerfi. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að minnka þær krónueignir í eigu erlendra aðila sem voru innan hafta m.a. með víðfeðmu samkomulagi við kröfuhafa föllnu bankanna um að þeir myndu greiða þorra innlendra eigna sinna til ríkissjóðs í formi stöðugleikaframlaga gegn því að fá að losa um aðrar eignir sínar.
Á síðustu árum hefur svo orðið algjör efnahagslegur viðsnúningur á Íslandi, aðallega vegna aukins ferðamannastraums. Sá viðsnúningur hefur leitt til þess að eitt þeirra vandamála sem óttast að myndi verða við afnám hafta, að krónan myndi veikjast mikið, er ekki vandamál lengur. Nú er krónan þvert á móti orðin það sterk að margir innlendur atvinnuvegir myndu þiggja það með þökkum ef hún veiktist og stjórnvöld hafa verið að undirbúa sérstakar aðgerðir til viðnáms vegna styrkingu krónunnar.
Sagði afnám framundan á næstu vikum eða mánuðum
Slakað hefur verið á fjármagnshöftum á síðastliðnum rúma ári í nokkrum skrefum. Heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta utan Íslands hafa verið rýmkaðar og heimildir almennings og fyrirtækja til að stunda gjaldeyrisviðskipti og fjárfesta utan hafta hafa líka verið auknar í litlum skrefum frá ágústmánuði 2016. Frá og með síðustu áramótum má almenningur til að mynda fjárfesta fyrir allt að 100 milljónum króna utan íslensks hagkerfis. Þrátt fyrir þessi skref var ljóst að höft voru enn til staðar og Seðlabanki Íslands hafði áfram stíft eftirlitshlutverk og ýmis tól til inngrips ef hann teldi þess þurfa.
Haftamálin hafa verið til umræðu í þinginu á undanförnum dögum. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í vikunni í óundirbúnum fyrirspurnatíma að verið væri að undirbúa aðgerðir til viðnáms í gjaldeyrismálum vegna styrkingar krónunnar. Afnám hafta gæti átt sér stað á næstu vikum eða mánuðum. Nú er ljóst að mun styttra er í þær aðgerðir en áður var af látið.