Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og fyrrverandi forsætisráðherra, er gagnrýninn á samkomulagið sem Seðlabankinn hefur gert við aflandskrónueigendur um að kaupa krónur á 137,5 krónur fyrir evru.
„Í stað þess að klára planið eins og lagt var upp með og gera þetta að sigurdegi virðist stjórnvöld ætla að nota tækifærið til að leysa vogunarsjóðina út með gjöfum, alla á einu bretti,“ segir Sigmundur Davíð á Facebook-síðu sinni. Óttinn hafi reynst réttur. „Það stendur til að verðlauna hrægammana sem vildu ekki spila með (í útboðinu í fyrra) og ákváðu þess í stað að beita áróðri og undirróðri til að hafa áhrif á íslensk stjórnmál.“
Stjórnvöld hafi á sínum tíma verið búin að gera mönnum ljóst að þeir sem tækju ekki þátt í aflandskrónuútboði Seðlabankans um mitt síðasta ár myndu sitja eftir og gætu setið fastir á lágum eða engum vöxtum í mörg ár. „Þeir sem höfðu séð merki þess að hægt væri að brjóta stjórnvöld á bak aftur tóku ekki þátt og nú fá þeir að kaupa evruna á ca. 137 krónur. Sá sem hefði fengið 100 milljón evrur með því að taka þátt í útboðinu fær nú rúmlega 138 milljón evrur. Það er hægt að kaupa margar auglýsingar og ráða marga PR-menn fyrir slíkan mun.
Planið gekk upp hjá vogunarsjóðunum. Þeir fengu kosningar, nýja ríkisstjórn, nýja stefnu og nýtt verð. „Special price for you my friend,““ skrifar Sigmundur Davíð að lokum.