„2017 er ekki nýtt 2007,“ sagði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, í munnlegri skýrslu sinni um afnám fjármagnshafta á Alþingi í dag. Hann fagnaði afnámi fjármagnshafta og þakkaði öllum þeim sem hefðu lagt hönd á plóg við afnámið.
Benedikt sagði umsvif bankakerfisins mun minni nú en fyrir áratug, einstaklingar og fyrirtæki hafi greitt niður skuldir, en á þeim tíma hafi þeir safnað skuldum. Hagfræðingar væru sammála um að efnahagur þjóðarinnar standi nú mun betur en þá. „Ferðaþjónusta, útvegur og fjölbreytt nýsköpun hafa aukið útflutning nú í stað hins hola bankakerfis sem gein yfir öllu árið 2007. Fjármálakerfið býr nú við annars konar regluverk, þar sem áhætta er minni og gegnsæi meira og við höldum áfram á þeirri braut.“
Í máli Benedikts kom einnig fram að hann og fleiri hefðu haldið fund með leiðtogum stjórnarandstöðunnar þremur dögum áður en fundur var haldinn með fulltrúum vogunarsjóða í New York á dögunum. Áður hefur komið fram í máli hans að það hafi verið fulltrúar vogunarsjóðanna sem óskuðu eftir fundi með íslenskum stjórnvöldum. Hann sagði að hugmyndir vogunarsjóðanna hefðu reynst óraunhæfar og engir samningar hefðu verið gerðir við þá.
Fjármálaráðherra sagði einnig að mögulegt hefði verið að þurrka upp aflandskrónuvandann í kringum útboðið sem Seðlabankinn hélt um mitt síðasta ár, með því að lækka gengið aðeins. Það hafi ekki verið gert og nú sé hægt að sjá það glöggt að skynsamlegt hefði verið að gera það. „Í ráðuneytinu heyri ég að líklegt sé að á þeim tíma hefði verið hægt að þurrka snjóhengjuna svonefndu upp að metu leyti ef gengið hefði verið á milli 165 og 170 krónur á evru. Nú sjáum við glöggt að skynsamlegt hefði verið að ljúka viðskiptunum á því gengi. Þáverandi stjórnvöld ákváðu að gera það ekki. Kannski vegna þess sjónarmiðs að með því hefði verið gert allt of vel við aflandskrónueigendur. Eftir á sjá allir að Íslendingar hefðu grætt mjög mikið á því að ljúka dæminu þá, en menn misstu af því tækifæri,“ sagði hann.
Umræðan um afnám fjármagnshafta fer nú fram á Alþingi, og hægt er að fylgjast með henni hér.