Íslenska krónan hefur veikst umtalsvert það sem af er degi. Ástæðan er tilkynning um afnám hafta í gær, en nýjar reglur um gjaldeyrismál munu taka gildi á þriðjudagsmorgun. Eftir það verða heimili og fyrirtæki ekki lengur bundin af takmörkunum á gjaldeyrisviðskiptum, fjárfestingum erlendis, áhættuvörnum og lánaviðskiptum auk þess sem skilaskylda á erlendum gjaldeyri verður afnumin. Höft á fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis verða líka afnumin en áfram verða í gildi reglur til að koma í veg fyrir vaxtamunaviðskipti og spákaupmennsku með afleiður.
Samhliða því að tilkynnt var um afnám hafta greindu stjórnvöld frá því að samið hefði verið við eigendur aflandskróna um að selja þær á genginu 137,5 krónur fyrir hverja evru. Sömu eigendur, að mestu bandarískir vogunarsjóðir, höfðu neitað að taka þátt í aflandskrónuútboðum Seðlabankans sumarið 2016 þegar þeim bauðst að borga 190 krónur fyrir hverja evru. Þegar hafa eigendur 90 milljarða króna tekið þessu tilboði og er ávinningur þeirra af því að hafna þátttöku í útboðinu, en semja þess í stað nú, yfir 20 milljarðar króna. Þeir fá 38 prósent fleiri evrur nú fyrir krónurnar sínar en þeim bauðst sumarið 2016. Enn á eftir að ná samkomulagi við erlenda eigendur 105 milljarða króna.
Krónan veiktist við opnun markað í morgun, og er það í takti við væntingar stjórnvalda um að stöðva þá miklu styrkingu hennar sem átt hefur sér stað að undanförnu. Evra kostar nú um 119 krónur en kostaði 115 krónur við lokun markaða á föstudag og gengi krónu gagnvart henni hefur því veikst um 3,4 prósent. Það er sambærilegt veiking og átt hefur sér stað gagnvart öðrum helstu viðskiptamyntum Íslands. Vert er þó að taka fram að gengi krónunnar er nú svipað og það var um miðjan febrúarmánuð. Því er ekki um að ræða kúvendingu á virði hennar.
Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands er veikingin þó ekki vegna útflæðis á fjármunum vogunarsjóðanna sem samið hafa beint við bankann um að skipta krónunum sínum í aðra gjaldmiðla. Þau viðskipti munu ekki fara fram í gegnum gjaldeyrismarkað innanlands og þeir fjármunir sem þar eru undir eru heldur ekki lausir í dag.
Haftalosunaráform höfðu jákvæð áhrif í Kauphöllinni í morgun. Þar hækkuðu flest félög. Mest hefur Icelandair Group, sem hefur hríðfallið í virði á undanförnum mánuðum, hækkað, eða um 3,6 prósent.