Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla, lætur af störfum samhliða því að Vodafone hefur keypt miðla fyrirtækisins. Sævar greindi starfsfólki frá þessu á fundi með starfsfólki 365 nú fyrir skömmu.
Tilkynnt var um það til kauphallar í morgun að Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, hafi undirritað samning um kaup á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins. Kaupverðið er 7.725-7.875 milljónir króna. Það greiðist í reiðufé, með útgáfu nýrra hluta í Fjarskiptum og yfirtöku á 4,6 milljarða króna skuldum.
Sú breyting er hefur orðið á fyrra samkomulagi að nú eru Fjarskipti ekki bara að kaupa ljósvaka- og fjarskiptaeignir 365 miðla. Nú bætast bæði fréttavefurinn Vísir.is og fréttastofa 365, að undanskilinni ritstjórn og rekstri Fréttablaðsins, í kaupin. Áður ætlaði Fjarskipti einungis að kaupa sjónvarps- og útvarpsstöðvar 365 auk fjarskiptahluta fyrirtækisins. Helstu sjónvarpsstöðvar eru Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásin. Helstu útvarpsstöðvar eru Bylgjan, FM957 og X-ið.
Í tilkynningunni segir að með viðskiptunum eignir Fjarskipti „öflugasta fjölmiðla- og afþreyingarfyrirtækið hér á landi. Velta sameinaðs félags mun nema um 22 milljörðum króna og skila um 5 milljörðum króna í EBITDA þegar samlegðaráhrif eru að fullu komin fram. Með viðskiptunum verður til leiðandi fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi, sem mun veita yfir 500 manns atvinnu og bjóða upp á fjölbreytt vöruframboð og enn betri þjónustu til sinna viðskiptavina.“